Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknaflokksins, segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og nú fyrrverandi forsætisráðherra, hefði átt að segja af sér þingmennsku. Hann hefði þá haft tækifæri til að koma aftur til leiks tvíefldur. „En það er auðvitað kjósenda og stuðningsmanna flokksins að ákveða hvort hann verði framtíðarformaður flokksins.“ Þetta er haft eftir Höskuldi í Fréttablaðinu í dag. Hann segir einnig að Sigmundur Davíð eigi að fá rými til að gera betur grein fyrir sínum málum. „Hann sagði sjálfur að það væri ástæða til þess að gera betur grein fyrir sínum málum og leggja fram gögn, ef þau eru til.“
Sigmundur Davíð baðst loks lausnar á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær. Við tók ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Sigmundur Davíð ætlar sér að fara í frí á næstu dögum og taka síðan sæti sem almennur þingmaður. Hann mun einnig verða formaður Framsóknarflokksins áfram.
Afsögn Sigmundar Davíðs kom í kjölfar þess að opinberað var að hann hefði átt aflandsfélag með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum. Félagið hélt utan um miklar eignir eiginkonu hans og var kröfuhafi í slitabú föllnu bankanna. Sigmundur Davíð hefur ítrekað sagt að allir skattar hafi verið greiddir hérlendis vegna þeirra eigna sem í félaginu eru en hefur ekki viljað svara fyrirspurnum, meðal annars Kjarnans, um hvort hann og eiginkona hans hafi fyllt út svokallaða CFC-skýrslu með skattframtali sínu, líkt og eigendur félaga á lágskattasvæðum eiga að gera.
Í Kastljósþætti, sem unnin var í samstarfi við Reykjavík Media og sýndur var síðasta sunnudag, var greint frá tengslum íslenskra stjórnmálamanna við félög í þekktum skattaskjólum. Þegar hefur verið upplýst að nöfn nokkur hundruð Íslendinga sé að finna í þeim skjölum sem umfjöllunin byggði á, en þau eru frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama. Um er að ræða stærsta gagnaleka sögunnar og hefur hann verið fyrsta frétt út um allan heim undanfarna tæpa viku.
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að ríkisskattstjóri hafi krafist þess að fá Panama-skjölin afhent frá Reykjavik Media á grundvelli 94. greinar tekjuskattslaga. Þar segir: „Öllum aðilum […] er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Ekki skiptir máli hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til […]."
Þegar hefur verið sent bréftil Reykjavík Media, sem hefur frest til að taka afstöðu til málsins.Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavik Media, segir þó að fyrirtæki hans hafi ekkert forræði yfir gögnunum. „Það hafa Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ)[...]Varðandi óskir ríkisskattstjóra þá er lögmaður okkar að svara því erindi.“