Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, ræddi ekki með neinum beinum hætti atburði síðustu daga í ræðu sinni vegna vantrauststillögu á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem tók við völdum í gær. Hann sagði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa verið afar farsæla, að árangurinn hafi verið framúrskarandi. Ríkisstjórnin hafi boðið upp á von og haft þor til að taka stórar ákvarðanir. Í þeim ræðum sem stjórnarandstæðingar hefðu flutt í dag hefðu staðreyndir ekki komið mikið við sögu, hvorki um störf ríkisstjórnarinnar né um atburði líðandi stundar.
Sigmundur Davíð eyddi stórum hluta ræðu sinnar í að ræða þá ríkisstjórn sem sat kjörtímabilið 2009 til 2013. Hann sagði staðreyndir ekki góða söluvöru fyrir þá ríkisstjórn. Söluvara þeirra hafi meðal annars verið reiði, hatur, vonleysi og gremju. Nú vilji stjórnarandstaðan treysta á reiðina aftur. „Það hefur alltaf endað illa þegar vald er byggt á reiði."
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi óttast að vekja andann hjá þjóðinni. Hún hafi séð efnahagshrunið sem pólitískt tækifæri. Ríkisstjórn sín hafi hins vegar boðið upp á von og haft þor til að taka stórar ákvarðanir.