Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að þegar hann starfaði hjá RÚV til margra ára hefði það verið óhugsandi að RÚV tæki þátt í vinnubrögðum eins og þeim sem beitt var þegar fréttamennirnir Sven Bergman og Jóhannes Kr. Kristjánsson tóku nú heimsfrægt viðtal við hann. Það er upplifun Sigmundar Davíðs að RÚV hafi tekið afstöðu í málinu með umfjöllun sinni og að ætlunin hafi verið að setja viðmælandann, hann sjálfan, í sem allra verst ljós með því að segja ekki alla söguna. Þetta kemur fram í viðtali við Sigmund Davíð í Morgunblaðinu í dag.
Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar var spurt hvort fólki hafi þótt umfjöllun Kastljóss um aflandsfélagaeign íslenskra ráðamanna fagleg. Yfirgnæfandi meirihluti aðspurðra, 78 prósent, sögðu að þeim hafi þótt umfjöllunin mjög eða frekar fagleg. Einungis 14 prósent sögðu að þeim hafi þótt hún ófagleg.
Í Morgunblaðinu kemur einnig fram að hann telji að svonefnd CFC-löggjöf nái einungis til rekstrarfélaga. Félagið Wintris, sem var í helmingseigu hans fram til loka árs 2009 þegar sá hluti var seldu til eiginkonu Sigmundar Davíðs á einn dal, sé ekki rekstrarfélag. CFC-löggjöfin tók gildi hérlendis daginn eftir að sala Sigmundar Davíðs á félaginu fór fram. CFC stendur fyrir Controlled Foreign Corporation, erlend fyrirtæki, félög eða sjóði í lágskattaríkjum, en lög um slík félög voru sett á Íslandi árið 2009 og löggjöfin innleidd í kjölfarið. Lögin kveða meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa, skýrslu ásamt greinargerð þar sem meðal annars eru sundurliðaðar tekjur, skattalegar leiðréttingar, arðsúthlutun og útreikningur á hlutdeild í hagnaði eða tapi á grundvelli ársreikninga, sem eiga að fylgja. Ef það er ekki gert brýtur það í bága við lög um tekjuskatt.
Sigmundur Davíð segir að endurskoðandi eiginkonu sinnar hafi unnið fyrir hana skattframtal með sundurliðað yfirlit yfir eignir félagsins frá því að áður en löggjöfin tók gildi. Því hafi skilyrði hennar verið uppfyllt og kona sín ætið greitt skatta í samræmi við lög. Sigmundur Davíð svarar því þó ekki beint í viðtalinu hvort hann hafi skilað CFC-skýrslu ásamt greinargerð, líkt og lög gera ráð fyrir.
Sigmundur Davíð sagði eiginkonu sína reiðubúna til að birta frekari gögn um skattamál þeirra hjona ef aðrir forystumenn stjórnarflokkanna geri slíkt hið sama.