Stofnuð hefur verið hópfjármögnunarsíða að íslenskri fyrirmynd í Slóveníu, Adrifund.com. Notast er við sama kerfi og hjá Karolina Fund og mikið samstarf er á milli fyrirtækjanna tveggja. Matej Rauh, stofnandi slóvensku síðunnar, fékk hugmyndina þegar hann var staddur á Íslandi við nám í Háskólanum í Reykjavík. Efni meistararitgerðar hans var hópfjármögnun og lagalegir þættir hennar í Bandaríkjunum og í Slóveníu. Hann segir að hann hafi strax byrjað að leita af slíkri starfsemi hér á Íslandi og fundið Karolina Fund eftir leit á netinu.
„Þetta er mjög spennandi fyrir okkur. Við höfum afrekað mikið síðasta tvo og hálfan mánuðinn og viðbrögðin í Slóveníu um þetta fyrsta hópfjármögnunarfyrirtæki eru mjög jákvæð,“ segir Matej. Þau byrjuðu með sjö verkefni sem gengið hafa vonum framar. Kórar af ýmsum toga hafa m.a. nýtt sér hópsöfnunina til ferðalaga.
Matej kláraði meistaranám í Háskólanum í Ljubljana í nóvember 2015 og hafði fljótlega samband við forsvarsmenn Karolina Fund. Hann vildi nýta þá lagalegu þekkingu sem hann hafði til þess að stofna hópfjármögnunarfyrirtæki í heimalandinu. „Engin slík fyrirtæki voru fyrir í Slóveníu fyrir tíma Adrifund en stór hluti verkefna safna fé á Kickstarter og Indiegogo, svo ég vissi að það væri góð hugmynd að stofna fyrirtæki heima,“ segir Matej. Hann bætir við að Karolina Fund hafi strax sýnt áhuga á samstarfinu.
„Matej kom til okkar en hann var að skrifa ritgerð um hópfjármögnun. Hann var mjög áhugasamur um síðuna okkar og hvernig við vorum að vinna þetta eftir hrunið. Hann var hrifin af sögu okkar,“ segir Ingi Rafn Sigurðsson, einn af stofnendum Karolina Fund.
Úr varð að Matej pantaði sér flugfar til Reykjavíkur og hitti forsvarsmenn Karolina Fund í janúar 2016. Hann segir að þeir hafi fundað daglega og aðeins tveimur dögum eftir að hann kom aftur til Slóveníu var hann búinn að stofna Adrifund og byrjaður að vinna.
Uppsetning síðunnar er með sama sniði og Karolina Fund og er kerfið byggt á sama grunni. Starfsfólk Karolina Fund veitir Adrifund tæknilega aðstoð og hjálpar til við viðskiptahliðina. Ingi Rafn segir að þeir hafi byggt sitt kerfi alveg upp frá grunni en vefsíða þeirra var sett á laggirnar árið 2012. Hann segir að umsvif hennar hafi tvöfaldast á hverju ári síðan þá.
Karolina Fund er einnig í norrænu hópfjármögnunarbandalagi, The Nordic Crowdfunding Alliance, en Ingi Rafn segir tilganginn með bandalaginu að sameiga krafta lítilla hópfjármögnunarsíðna til þess að styrkja innviði slíkrar starfsemi á Norðurlöndunum.