Rannsókn á þriggja milljarða króna lánveitingu frá íslenska fjárfestingafélaginu Fons, þá í eigu athafnamannanna Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, til félagsins Pace Associates í apríl 2007 er lokið hjá héraðssaksóknara, samkvæmt heimildum Kjarnans. Málið hefur verið í rannsókn hjá embættinu árum saman. Nú er beðið ákvörðunar um hvort saksótt verði í því eða ekki. Samkvæmt fréttaflutningi DV og RÚV árið 2010 runnu milljarðarnir þrír að endingu í vasa Pálma og athafnamannanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Þeir hafa ætið neitað því.
Pace Associates er skráð til heimilis í Panama og var sett á fót af lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sem nú er í kastljósi fjölmiðla út um allan heim vegna leka á 11,5 milljón skjölum frá henni. Skjölin sýna víðferma aflandsfélagaeign sem Mossack Fonseca hefur búið til fyrir viðskiptavini banka út um allan heim. Um er að ræða stærsta leka heimssögunnar.
Þegar hefur verið upplýst um aflandsfélagaeign íslenskra stjórnmálamanna. Sú opinberun hefur þegar leitt til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra Íslands vegna aðkomu sinnar að aflandsfélaginu Wintris. Auk þess varpaði hún ljósi á tengsl formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal, við aflandsfélög.
Í skjölunum eru hins vegar upplýsingar um alls 800 aflandsfélög sem tengjast 600 Íslendingum. Því er ljóst að mikið magn upplýsinga um aflandsfélagaeign, og umfang þeirra eigna sem vistaðar eru í slíkum, eiga enn eftir að koma fram.
The Sunday Times setti í gær í loftið leitarvél sem nær yfir 37 þúsund félög sem tengjast Mossack Fonseca og skattaskjólinu Panama. Eitt þeirra félaga sem hægt er að finna þar er áður nefnt Pace Associates. Í upplýsingunum kemur fram að félagið hafi verið stofnað 20. júní 2005 en lagt niður 26. nóvember 2010.
Fjölmiðlaumfjöllun fyrir sex árum síðan
Félagið Pace var mikið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum árið 2010. Þá fjallaði DV um það í tengslum við þriggja milljarða króna lánveitingu fjárfestingafélagsins Fons, þá í eigu athafnamannanna Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, til Pace Associates í apríl 2007.
RÚV sagði fréttir af því árið 2010 að peningarnir sem lánaðir voru til Pace hafi á endanum runnið í vasa Pálma, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Lánaviðskiptin fóru fram í gegnum Landsbanka Íslands í Lúxemborg, en sá banki var í miklum viðskiptum við lögfræðistofuna Mossack Fonseca í Panama um stofnun aflandsfélaga. Í fréttinni sagði að lánasamningurinn hafi verið útbúinn sex dögum eftir að millifærsla fjárhæðarinnar átti sér stað og um hafi verið að ræða svokallað kúlulán þar sem öll fjárhæðin var á gjalddaga þremur árum eftir gerð lánasamningsins. Í fréttinni var enn fremur sagt frá því að sama dag og gengið var frá lánasamningnum, þremur árum fyrir gjaldaga, hafi lánið í heild verið afskrifað í bókhaldi Fons.
Höfðuðu meiðyrðamál og unnu
Jón Ásgeir og Pálmi höfðuðu meiðyrðamál gegn fréttamanninum sem sagði fréttina og unnu þau á endanum fyrir Hæstarétti. Fréttamaðurinn, Svavar Halldórsson, sagði í Facebook-stöðuuppfærslu í kjölfar dóms í málinu sem Jón Ásgeir höfðaði: "Fréttin er sönn, til eru gögn fyrir öllum efnisatriðum umræddrar viðskiptafléttu og málið er til rannsóknar á fleiri en einum stað í kerfinu (eins og staðfest er í yfirlýsingu Sérstaks saksóknara). Sá hluti fréttarinnar sem fjallaði um hvernig yfirvöld töldu raunverulega í pottinn búið, byggðist hins vegar á trúnaðarupplýsingum frá heimildarmönnum sem ekki geta komið fram. Þeirra trúnaði mun ég ekki bregðast! Jóni Ásgeiri tókst engan vegin að sýna fram á að neitt rangt við fréttina – enda er þetta allt rétt."
Heimildir Kjarnans herma að rannsókn málsins sé nú lokið og að það bíði ákvörðunar saksóknara um hvort ákært verði í málinu eða ekki.