Samkvæmt samantektum utanríkisráðuneytisins hefur umfjöllun um atburði liðinnar viku á Íslandi erlendis verið staðreyndamiðuð og beitt. Neikvæðs tóns hafi gætt í upphafi en hann orðið jákvæðari eftir að mótmæli hófust á Austurvelli og ný ríkisstjórn tók við. Þar sé vísað til þessara viðbragða þegar spurt er hvort aðrir muni bregðast eins við og á Íslandi. Til skemmri tíma litið hafi ímynd og ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi ekki beðið umtalsverðan hnekki þrátt fyrir talsverða ágjöf. Þetta segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í svari við fyrirspurn Kjarnans um þá vinnu sem ráðuneytið hefur ráðist í vegna erlendrar umfjöllunar um aflandsfélagaeign íslenskra ráðamanna og þau áhrif sem sú umfjöllun hefur haft hérlendis.
Urður segir að svo virðist sem mesta athyglin sé nú farin af Íslandi. Til lengri tíma litið séu hins vegar áskoranir framundan þar sem enn á eftir að birta upplýsingar um aflandsfélög hundruð Íslendinga.
Þúsundir frétta
Lilja D. Alfreðsdóttir, nýr utanríkisráðherra þjóðarinnar, sagði í fyrstu ræðu sinni á Alþingi fyrir helgi að í ráðuneyti hennar væri verið að „greina áhrif þeirrar erlendu umfjöllunar sem hefur verið og sú vinna er í gangi. Það er brýnt að meta skaðsemi umræðunnar og bregðast við á viðeigandi hátt." Lilja fór einnig yfir erlenda umfjöllun um Ísland og Panamaskjölin á fyrsta ríkisstjórnarfundi sínum í morgun og þau vibrögð sem fyrirhuguð eru vegna hennar.
Urður segir fréttirnar sem sagðar hafa verið af Íslandi vegna opinberunar á Panamaskjölunum skipta þúsundum. Þá skipti samfélagsmiðlafærslur tugum þúsunda. Ekki hafi verið mikið fjallað um áhrif málsins á efnahag eða orðspor landsins. „Umfjöllunin um Ísland hefur beinst að helstu gerendum í stjórnmálum landsins og mótmælum almennings en síður að viðskiptalífinu og þaðan af síður hefur umfjöllunin beinst að Íslandi almennt og þeim stóru verkefnum sem ríkisstjórnin hefur unnið að við losun fjármagnshafta. Það er ljóst að umfjöllunin öll hefur verið í neikvæðu ljósi framan af, þar sem Ísland var fyrsta vestræna lýðræðisríkið sem litað er af uppljóstrununum. Ítarleg umfjöllun um eignir og félög fyrrum forsætisráðherra og annarra ráðherra í ríkisstjórninni í skattaskjólum og ekki síður myndræn framsetning í helstu miðlum er ekki jákvæð.“
Ímynd og ásýnd Ísland ekki beðið skaða
Umfjöllun um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra og nýskipan ríkisstjórnar Sigurðar Inga hafi hins vegar verið með hlutlausum og jafnvel jákvæðum hætti. Þá hafi mótmælum almennings verið gerð góð skil og þyki þau almennt til marks um virkt og öflugt lýðræði. Urður telur ólíklegt að kastljós alþjóðlegra fjölmiðla muni aftur beinast að íslenskum stjórnmálamönnum með jafnmiklum þunga, enda séu uppljóstranir í Panamaskjölunum ekki einungis einskorðaðar við Ísland. „Til lengri tíma litið eru áskoranir framundan. Enn eru óbirtar upplýsingar um hundruði íslenskra aðila og leiða má líkur að því að það verði hluti af hluti af frásögnum alþjólegra fjölmiðla um hvað fór úrskeiðis á Íslandi á árunum fyrir hrun. Mat okkar í utanríkisráðuneytinu, sem jafnframt er byggt á stöðutöku helstu sendiskrifstofa Íslands og Íslandsstofu, að til skemmri tíma litið hafi ímynd og ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi ekki beðið umtalsverðan hnekki þrátt fyrir talsverða ágjöf.“
Utanríkisráðuneytið er enn, ásamt fleiri ráðuneytum, að skoða nánar hvort ástæða sé til að bregðast við, til dæmis með greinaskrifum, viðtölum eða öðru móti. Þeirri vinnu sé ekki lokið.