Engir annarlegir hvatar lágu að baki þeirri ákvörðun Landsbankans aðselja 31,2 prósent hlut sinn í Borgun með þeim hætti sem gert var í nóvember 2014, heldur einvörðungu hagsmunir Landsbankans eins og þeir voru metnir á þeim tíma. Betur hefði verið hægt að standa að sölunni og þeir sem að henni komu iðrast þess að það hafi ekki verið gert. Hluturinn hefði átt að seljast í opnu söluferli og forsvarsmenn Landsbankanshefðu átt að sjá fyrir mögulega hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe. Þetta kom fram í ávarpi Tryggva Pálssonar, fráfarandi formanns bankaráðs Landsbankans, á aðalfundi hans í gær.
Þar sagði Tryggvi að fárviðri hefði geisað vegna sölu á hlut bankans í Borgun í upphafi árs. „Fyrir nokkrum mánuðum síðan vaknaði á ný heit og á köflum ósanngjörn umræða þegar í ljós kom að Borgun myndi eignast vænan hlut í söluhagnaði af Visa Europe. Við hefðum getað staðið betur að sölu hlutarins haustið 2014.[...]Mikilvægast er að engir annarlegir hvatar lágu að baki þeirri ákvörðun bankans að selja hlutinn á þann hátt sem gert var, heldur einvörðungu hagsmunir Landsbankans eins og þeir voru metnir á þeim tíma. Landsbankinn er búinn að birta opinberlega þær upplýsingar sem að honum snúa og Fjármálaeftirlitið og Bankasýsla ríkisins hafa fjallað um það og sagt sitt álit. Framundan er umbeðin úttekt Ríkisendurskoðunar. Bankinn hefur dregið lærdóm af þeirri umræðu sem varð í kjölfar umræddra viðskipta og allt verklag þessu tengt er í endurskoðun. Fyrir tveimur vikum síðan breytti Landsbankinn með samhljóða ákvörðun bankaráðs stefnu sinni um sölu eigna og skilgreindi nýja stefnu vegna orðsporsáhættu.“
Tryggvi er einn þeirra fimm bankaráðsmanna í Landsbankanum sem höfðu tilkynnt að þeir myndu ekki sækjast eftir áframhaldandi setu í ráðinu eftir aðalfund. Ekki reyndist þó hægt að kjósa nýtt bankaráð á aðalfundinum í gær þar sem að einn þeirra sem boðið hafði sig fram, Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, þurfti að draga framboð sitt til baka. Í Fréttablaðinu í dag greinir hann frá því að yfirmenn hans hafi talið að það færi ekki saman við starf hans sem fjármálastjóra borgarinnar að sitja í bankaráði Landsbankans. Vegna þessa var ekki hægt að kjósa nýtt bankaráð á aðalfundinum. Þess í stað þurfti að fresta þeim kosningum til 22. apríl næstkomandi. Fráfarandi bankaráð mun því starfa nokkrum dögum lengur en ætlað hafði verið.
Selt bakvið luktar dyr
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig.
Í janúar var greint frá því að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Visa Inc. mun líkast til greiða um þrjú þúsund milljarða króna fyrir Visa Europe og það fé mun skiptast á milli þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem eiga rétt á hlutdeild í Visa Europe. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunar á Þorláksmessu 2015.
Borgun býst við því að fá 33,9 milljónir evra, um 4,8 milljarða króna, í peningum þegar Visa Inc. greiðir fyrir Visa Europe. Auk þess fær Borgun, líkt og aðrir leyfishafar innan Visa Europe, afhent forgangshlutabréf í Visa Inc. að verðmæti 11,6 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna. Auk þess mun Visa Inc. greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum, en hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar sem hlutfall af heildarviðskiptaumsvifum allra seljenda hlutabréfanna á þessum 4 árum.
Samkvæmt þessu mun Borgun fá um 6,5 milljarða króna auk afkomutengdar greiðslu árið 2020 vegna sölu Visa Europe.