Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði ekki fengið undanþágu frá fjármagnshöftum til að safna í eftirlaunasjóð sinn sem vistaður er í aflandsfélagi í Panama ef hann hefði óskað eftir slíkri hjá Seðlabankanum. Innlendum aðilum er óheimilt að flytja fjármuni af reikningum sínum hjá fjármálafyrirtæki hér á landi yfir á reikning í sinni eigu hjá fjármálafyrirtæki erlendis í þeim tilgangi einum að halda sparnaði erlendis. Þetta kemur fram í svörum Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið sem birt eru í frétt í dag.
Þar er þó einnig bent á að innlendur aðili geti átt fjármuni erlendis sem séu ekki háðir skilaskyldu hingað til lands. Það eigi til að mynda við fjármuni sem hafi verið í eigu viðkomandi áður en fjármagnshöft voru innleidd hér á landi þann 28. nóvember 2008. Í svari Seðlabankans segir: „Í slíkum tilvikum getur innlendur aðili flutt þá fjármuni á milli tveggja bankareikninga í sinni eigu erlendis þar sem það telst ekki fjármagnshreyfing á milli landa í skilningi laga um gjaldeyrismál.“
Júlíus Vífill vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði frekari svara hjá honum og vísaði í fyrri yfirlýsingar.
Sagði af sér tveimur dögum eftir þáttinn
Júlíus Vífill sagði af sér embætti borgarfulltrúa tveimur dögum eftir að upplýst hafði verið í sérstökum Kastljósþætti að hann ætti vörslusjóð í Panama sem settur hefði verið á fót árið 2014. Í þættinum kom fram að sérstök áhersla hefði verið lögð á að leyna tengslum hans við sjóðinn þegar hann var stofnaður.
Júlíus gaf út yfirlýsingu vegna málsins skömmu áður en að þátturinn var sýndur, og eftir að þeir sem unnu þáttinn höfðu sett sig í samband við hann, þar sem hann sagði að sjóðurinn hafi verið stofnaður í svissneskum banka til að mynda eftirlaunasjóðinn sinn, en að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun hans í Panama. Sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og sjálfseignastofnun. Aflandsfélagið heitir Silwood Foundation. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um greiðslur í félagið. Í fyrrnefndri yfirlýsingu sinni sagði hann að allt sem við kæmi sjóðinum væri í samræmi við íslensk lög „enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið.“