Í umfjöllun Irish Times um Panamaskjölin, kemur nafn Lofts Jóhannesson, 85 ára gamals Íslendings, sem búsettur er í Bandaríkjunum, ítrekað fyrir vegna félaga sem skráð voru á Panama. Hann er sagður hafa stundað umsvifamikla vopnasölu sem rakin er til leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA.
Hann er sagður hafa auðgast verulega, einkum á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar, þegar leyniþjónustan fjármagnaði hernaðaraðgerðir víða um heim gegn kommúnistastjórnum og uppgangi kommúnista, eins og það er orðað í umfjöllun Irish Times og heimilda sem blaðið vísar til. Sérstaklega er hann tengdur við slíkar aðgerðir í Afganistan.
Loftur gengdi hlutverki milligönguaðila í vopnakaupum, samkvæmt umfjölluninni. Talsmaður hans neitar þessu alfarið, samkvæmt upplýsingum frá alþjóðasamtökum blaðamanna, ICIJ, sem Irish Times vitnar til. Talsmaðurinn segir Loft ekki hafa tengst CIA, en engar frekar skýringar eru gefnar á því viðskiptalegum umsvifum hans.
Í gögnunum, þar sem lögmannstofan Mossack Fonseca er í forgunni líkt og í umfjöllun Kjarnans og RME á vef Kjarnans í gær, segir að Loftur hafi keypt vínekru í Frakklandi og heimili á Barbados. Hann er tengdur við í það minnsta fjögur félög í Panamaskjölunum, sem eru í þekktum skattaskjólum á Bresku jómfrúareyjunum og í Panama. Í janúar 2015 greiddi hann þúsundir Bandaríkjadala til Mossack Fonseca, að því er segir í umfjölluninni.
Eignirnar hlaupa á tugum milljóna Bandaríkjadala, og er sérstaklega vitnað til eignar á Barbados, sem sé sambærileg þeirri sem Loftur á, sem sé virði 35 milljóna Bandaríkjadala, eða sem nemur um 4,5 milljörðum króna.
Í bókinni Íslenskir milljarðamæringar, eftir Pálma Jónasson, fréttamann, frá árinu 2001, er Loftur einn þeirra sem sagður er eiga meira en milljarð króna í hreinni eign. Hann var á árum áður flugmaður og kom að flugrekstri.