Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar og hluthafi í Kjarnanum átti félag sem skráð var til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum. Félagið, sem hét M-Trade, var stofnað árið 2001 en formlega afskráð árið 2012. Það fjárfesti m.a. í afleiðuviðskiptum og var í eignastýringu hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Nafn félagsins M-Trade kemur fyrir í skjölum sem lekið hefur verið frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Nafn Vilhjálms sjálfs er þó ekki í skjölunum. Vilhjálmur átti einnig annað dótturfélag á árunum 2009 til 2011 sem skráð var til heimilis á Guernsey. Það félag hafði sama tilgang og M-Trade hafði áður, að stunda önnur viðskipti en með hlutabréf, skuldabréf eða fasteignir.
Vilhjálmur upplýsti stjórn Kjarnans um þetta um liðna helgi þar sem framundan er umfjöllun Kastljós þar sem m.a. verður fjallað um félög tengd honum. Í ljósi þessara upplýsinga hefur Vilhjálmur vikið úr stjórn Kjarnans.
Sagði af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar
Í lok mars síðastliðins, eftir að opinberað hafði verið að eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, hefði átt aflandsfélagið Wintris og verið kröfuhafi í bú föllnu bankanna var töluverð umfjöllun í fjölmiðlum um aðra þátttakendur í stjórnmálum sem áttu eignir erlendis. Einn þeirra var Vilhjálmur, sem þá var gjaldkeri Samfylkingarinnar.
Vefmiðillinn Eyjan birti frétt þann 30. mars þar sem því var haldið fram að nafn Vilhjálms væri í gögnum ICIJ. Hann neitaði því staðfastlega.
Í pistli sem Vilhjálmur birti daginn eftir, þann 31. mars, á bloggsvæði Eyjunnar sagðist hann eiga félag í Lúxemborg, Meson Holding, og að það félag ætti dótturfélag á Kýpur. Vilhjálmur sagði starfsemi beggja félaga vera fullkomlega löglega og að ætið hafi allir skattar og gjöld verið greiddir vegna þeirra. Þrátt fyrir þetta teldi hann að það mætti „augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu. Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.“
Fer úr stjórn Kjarnans
Vilhjálmur minntist ekki á félagið M-Trade í umræddum pistli. Það félag var stofnað í gegnum Mossack Fonseca árið 2001 en var aflagt árið 2012. Þótt nafn Vilhjálms sé ekki í þeim gögnum sem lekið hefur verið frá lögmannsstofunni þá er nafn M-Trade þar hins vegar. Vilhjálmur segir að eftir fall Kaupþings í október 2008 hafi Meson Holding flutt allar sínar eignir úr eignastýringu þar og þar með hafi félagið verið úr sögunni hvað hann varðar. Í kjölfarið hafi Meson Holding leitað fyrir sér með bankaviðskipti og eignastýringu á öðrum stöðum og árið 2009 hafi það hafið viðskipti við alþjóðlegan banka sem hafi stofnað dótturfélag fyrir Meson Holding á Guernsey. Það félag, Jacinth, starfaði til júní 2011. Síðan þá segist Vilhjálmur ekki hafa átt nein félög á aflandssvæðum.
Vilhjálmur segir að það hefði verið skynsamlegra og hreinskiptara af sér að hafa greint frá eign sinni á þessum félögum þegar hann birti bloggpistil á Eyjunni í lok mars síðastliðinn.
Vilhjálmur hefur verið hluthafi í Kjarnanum frá haustmánuðum 2014, á 15,98 prósent hlut í fyrirtækinu, og hefur setið í stjórn þess. Hann á þann hlut í gegnum félag sitt Miðeind ehf. og það félag er í eigu Meson Holding A.S., sem skráð er í Lúxemborg. Í ljósi upplýsinga um aflandsfélagaeign Vilhjálms hefur verið ákveðið að Vilhjálmur víki úr stjórn og tók sú úrsögn gildi í dag.
Eigendur Kjarnans eru:
- HG80 ehf. (í eigu Hjálmars Gíslasonar) 16,55%
- Miðeind ehf. (í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar) 15,98%
- Magnús Halldórsson 13,79%
- Þórður Snær Júlíusson 12,20%
- Birna Anna Björnsdóttir 9,39%
- Hjalti Harðarson 9,25%
- Milo ehf. (Í eigu Gumma Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur) 5,69%
- Fagriskógur ehf. (í eigu Stefán Hrafnkelssonar) 5,69%
- Ágúst Ólafur Ágústsson 5,69%
- Birgir Þór Harðarson 2,9%
- Jónas Reynir Gunnarsson 2,9%