Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa sem nú afplánar fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins, er einn þeirra níu fjársterku Íslendinga sem hafa frá árinu 2008 haft á bilinu ellefu til 15 milljarða króna í eignarstýringu í Lúxemborg. Alls var Ólafur með tæpa fjóra milljarða króna í stýringu þar í gegnum félag sitt á árinu 2013 og eignir þess voru um fjórir milljarðar króna. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag og byggir frétt blaðsins á samantekt sem Creditinfo gerði að beiðni þess og nær yfir 201 félag sem er skráð sem S.A. eða S.á.r.l. félög í fyrirtækjaskrá á Íslandi. Morgunblaðið segir vísbendingar um að efnaðir Íslendingar séu með tugi milljarða króna í eignastýringu í Lúxemborg. Í fréttaskýringu sem birt var í Kjarnanum fyrir skemmstu kom fram að Íslendingar hefðu átt um 112 milljarða króna í fjármunaeign í Lúxemborg í lok árs 2014.
Félag Ólafs heitir Kimi S.á.r.l. og var stofnað í mars 2009. Það hefur fjárfest í hollensku félagi og tveimur spænskum fyrirtækjum í sjávarútvegi á undanförnum árum. Í ársreikningum Kima kemur fram að félagið hafi keypt íslenskar krónur á „á hagstæðu gengi“ í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Sú leið tryggði þeim sem komu með gjaldeyri til landsins, og skiptu honum í íslenskar krónur, að meðaltali um 20 prósent virðisaukningu á fé sínu.
Í Morgunblaðinu er fjallað um nokkur önnur félög í eigu efnaðra Íslendinga. Þar á meðal eru félög í eigu systranna Berglindar og og Ragnheiðar Jónsdætra, sem áttu áður hlut í íslenska útgerðarfyrirtækinu Sjólaskipum. Þær efnuðust mjög þegar Sjólaskip var selt til Samherja árið 2007. Á listanum sem Morgunblaðið birtir eru einnig nöfn Vilhjálms Þorsteinsson, fjárfestis og hluthafa í Kjarnanum, Gunnlaugs Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og hjónanna Arna Karlssonar og Hellenar Mögnu Gunnarsdóttur fjárfesta.
Þá er nafn Skúla Þorvaldssonar, sem var einn umfangsmesti viðskiptavinur Kaupþings fyrir hrun, þar einnig. Skúli var dæmdur í sex mánaða fangelsi í Marple-málinu svokallaða í október 2015, einnig að finna í umfjölluninni. Málið snérist um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki. Í því voru gerð upptæk verðbréf, fjárfestingasjóður og innstæðu á tilteknum bankareikning í eigu Skúla í Lúxemborg sem nam samtals rúmlega 6,7 milljónum evra. Félag Skúla í Lúxemborg, Holt Holding S.A., átti alls 5,4 milljarða króna í lok árs 2014.
Nafn Önnu Lísu Sigurjónsdóttur, eiginkonu Hreiðars Más Sigurðssonar, er einnig að finna í umfjöllun Morgunblaðsins. Félag hennar er þó mun umsvifaminna en hinna sem þar er fjallað um og eignir þess voru 14 milljónir króna í lok árs 2014. Anna Lísa býr í Lúxemborg en Hreiðar Már afplánar nú langa fangelsisdóma vegna efnhagsbrota sem hann hefur verið dæmdur fyrir að hafa framið í starfi sínu sem forstjóri Kaupþings fyrir hrun.