Félög í eigu tveggja framkvæmdastjóra íslenskra lífeyrissjóða er að finna í skjölum panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca. Kastljós fjallaði um Panamaskjölin í kvöld í samstarfi við Reykjavik Media.
Um er að ræða Kára Arnór Kárason, nú fyrrverandi framkvæmdastjóri Stapa - lífeyrissjóðs, og framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins, Kristján Örn Sigurðsson. Kári Arnór sagði starfi sínu lausu eftir að Kastljós spurði hann spurninga vegna Panamaskjalanna.
Hvorki Kári Arnór né Kristján Örn tilkynntu stjórnum sjóðanna sem þeir stýrðu um viðskipti sín.
Útvortis og Hola
Fram kom í umfjöllun Kastljóss að Kári Arnór hafi stýrt lífeyrissjóði í 23 ár. Fyrst stýrði hann Lífeyrissjóði Norðlendinga, sem sameinaðist svo Lífeyrissjóði Austurlands 2007, undir merkjum Stapa - lífeyrissjóðs.
Samkvæmt gögnum frá Mossack Fonseca er Kári Arnór eigandi og prókúruhafi félagsins Utvortis limited sem skráð var á Tortóla í lok árs 2004. Margeir Pétursson, þáverandi eigandi og stjórnandi MP-fjárfestingabanka, hafði milligöngu um stofnun aflandsfélags Kára. Hann var í samskiptum við Mossack Fonseca og bað stofuna um að stofna félag á Jómfrúareyjum fyrir Kára Arnór, eiganda þess. Félagið skuli heita Útvortis Limited með 50 þúsund dollara í hlutafé. Það fé á að skrá í félagið Glímu ehf., sem er íslenskt. MP-banki sá um Útvortis Limited hér á landi og sá um samskipti við Mossack Fonseca. Kári sagðist í samtali við Kastljós hafa gefið félagið upp á skattframtölunum til ársins 2007. Ekki er gerð grein fyrir Útvortis í ársreikningum Glímu, en hann var umsvifamikill fjárfestir á þessum árum hér á landi.
Kári hefur líka setið fyrir hönd Stapa í stjórn verðbréfafyrirtækisins Íslenskra verðbréfa, á Akureyri. Íslensk verðbréf hétu áður Kaupþing Norðurlands til ársins 2000, en á þeim tíma sat Kári einnig í stjórn þess, er fram kom í Kastljósi.
Kári tengdist líka öðru aflandsfélagi, Hola Holding. Það var stofnað í Lúxemburg árið 1999 af Kaupþingi. Magnús Guðmundsson, sem afplánar nú dóm vegna Al-thani málsins, var skráður stjórnandi félagsins. Kára Arnóri voru veitt full yfirráð yfir Hola Holding nokkrum dögum eftir stofnun félagsins. Hlutafé þess nam um þremur milljónum íslenskra króna, eignirnar um 14 milljónir, en skuldir 11 milljónir króna. Tveimur árum síðar voru eignirnar um 50 milljónir en skuldir þess tæpar 70 milljónir.
Mistök að fylgja ekki lögum
Kári sagðist við Kastljós enga fjármuni hafa lagt inn í félagið og þátttaka hans í því hafi ekki tengst beint störfum hans fyrir lífeyrissjóðinn. Því hafi hann ekki gefið það upp á skattframtölum. En samt sem áður voru lög í gildi þar sem segir að framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs sé óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess. Holu Holding var slitið í desember 2002. Kári segir við Kastljós að þetta hafi verið mistök.
Enn skráður fyrir félagi í Panamaskjölunum
Eins og áður segir greindi Kastljós einnig frá aflandsfélagi Kristjáns Arnar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins, sem hann hefur stýrt frá árinu 2005. Hann er tengdur tveimur félögum sem er að finna í Panamaskjölunum; Mika Assett og Fulcas Inc. Mika var stofnað af Landsbankanum í Lúxemburg árið 2007. Kristján Örn var með umboð og prókúru í félaginu, sem er skráð á Panama. Fram kom í Kastljósi að svo virðist sem það hafi verið flutt frá Landsbankanum yfir til Nordea-bankans við hrun Landsbankans og svo verið lagt niður að beiðni Nordea árið 2014. Prókúra og stjórn Kristjáns Arnar á félaginu var þá gild til ársloka 2010.
Kristján Örn sagði við Kastljós að Mika hafi verið stofnað árið 2008 til að ávaxta fjármuni en ekki til að borga lægri skatta. Hann hafi þó ákveðið að hætta við að nota það. Hann sagðist ekki muna hversu mikið hann borgaði fyrir uppsetninguna á Mika. Hann viðurkenndi að hann hafi ekki látið stjórn lífeyrissjóðsins vita.
Fulcas Inc. var stofnað af Nordea árið 2009. Kristján Örn var líka skráður prókúruhafi þess og þar með raunverulegur eigandi í janúar 2009. Fulcas Inc er enn starfandi. Kristján Örn sagðist í svari sínu til Kastljóss að um hafi verið að ræða einstök viðskipti og nauðsynlegt hafi verið að stofna félagið til að geta farið í þau viðskipti. En ekkert varð af þeim viðskiptum.