ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sendi athugasemdir til íslensks dómstóls í fyrsta sinn í dag. ESA sendi Héraðsdómi Reykjavíkur skriflegar athugasemdir í máli Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvík. Málið varðar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í maí 2015. Þar var Norvík gert að greiða 650 milljóna króna sekt fyrir brot dótturfyrirtæki síns, Byko ehf., á samkeppnisreglum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.
Norvík áfrýjaði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Nefndin brot Byko ekki jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið, og taldi ekki sýnt fram á að brotið hefði verið gegn samkeppnisreglum EES-réttar. Sektin var lækkuð um 65 milljónir króna. Samkeppniseftirlitið sætti sig ekki við það og höfðaði mál í febrúar 2016 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þess er krafist að Norvík verði gert að greiða 650 milljóna króna sekt í málinu.
Athugasemdir ráðgefandi
Í því máli leggur ESA fram athugasemdir, sem snúa að því hvenær eigi að beita samkeppnisreglum EES-réttar og um varnaðaráhrif sekta í samkeppnismálum. ESA segir málið vekja upp mikilvægar spurningar varðandi túlkun EES-réttar.
„Samkeppnisyfirvöldum og dómstólum aðildarríkjanna er skylt að beita samkeppnisreglum EES-réttar þegar málsatvik falla innan gildissviðs EES-samningsins. Þeim ber einnig að tryggja að reglunum sé beitt af skilvirkni,” segir í tilkynningunni. ESA hefur heimild til að veita ábendingar og leggja fram athugasemdir, en þetta er í fyrsta sinn sem sú heimild er nýtt fyrir íslenska dómstóla. Athugasemdir ESA eru ráðgefandi fyrir dómstólinn.