Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla hefur fækkað stöðugildum hjá sér um 27 og ráðist í endurskipulagningu á starfsemi sinni hér á landi. Í breytingunum var 23 manns sagt upp störfum en fjórir hætta að eigin frumkvæði um næstu mánaðarmót. Starfsmenn verða eftir breytingarnar rúmlega 40 en voru þegar mest lét 86 talsins. Plain Vanilla flutti í stærra húsnæði við Laugaveg 77 árið 2014 og starfsemin verður þar áfram til húsa, en starfsmannafjöldinn verður nú aftur svipaður og þegar fyrirtækið flutti inn.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að það ætli að auka umsvif sín í Los Angeles í Bandaríkjunum og kröfur verða gerðar á það að skila hagnaði á árinu 2016. Stefnt er að því að Plain Vanilla sameinist bandaríska fyrirtækinu Glu Mobile á næstu tólf mánuðum, en það keypti stóran hlut í Plain Vanilla í byrjun árs.
Þar segir einnig að Plain Vanilla stefni að því að skila hagnaði á árinu, annars vegar með því að afla meiri tekna í samvinnu við tölvuleikjaframleiðandann Glu Mobile og hins vegar með samrekstri á ákveðnum sviðum sem skila mun samlegðaráhrifum. „Tekjur fyrirtækisins af QuizUp hafa aukist en draga þarf úr rekstrarkostnaði til að flýta því að fyrirtækið skili hagnaði. Umhverfi tæknifyrirtækja hefur breyst mikið undanfarið og víðast hvar í heiminum er nú áhersla á að þau skili hagnaði, en megináherslan var áður á vöxt óháð tekjum."
Verið er að lokahönd á spurningaþáttinn QuizUp í stúdíói sjónvarpsrisans NBC Í Los Angeles um þessar mundir og fór prufukeyrsla á þættinum fram aðfaranótt fimmtudags að íslenskum tíma. Stefnt er að því að fyrsti þátturinn fari í loftið í september. Nú þegar starfa tíu manns á vegum Plain Vanilla við þróun þáttarins á vesturströndinni og á Íslandi.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla, segir að það felist spennandi tækifæri í vaxandi umsvifum í Bandaríkjunum. „Samhliða áherslunni á að nýta tækifærin sem fylgja munu í kjölfarið þá þurfum við að endurskipuleggja fyrirtækið og horfa á eftir duglegu og hæfileikaríku fólki sem hefur unnið hörðum höndum við að koma QuizUp á þann stað sem það er í dag. Ég verð þeim ævinlega þakklátur fyrir eljuna og metnaðinn en veit jafnframt að þau munu ekki sitja lengi auðum höndum þar sem mikil eftirspurn er hjá íslenskum og erlendum fyrirtækjum eftir hæfileikaríku starfsfólki um þessar mundir.“
Setti milljarð í Plain Vanilla og fékk kauprétt á fyrirtækinu öllu
Í janúar fjárfesti Glu Mobile fyrir 7,5 milljónir dala, um einn milljarð íslenskra króna á þeim tímapunkti, í Plain Vanilla. Glu Mobile er skráð á NASDAQ verðbréfamarkaðinn og þróaði m.a. appið Kim Kardashian: Hollywood. Eins hefur fyrirtækið gert samning við söngkonuna Britney Spears um að þróa tölvuleik sem byggir á lífi hennar. Stærstu hluthafar Glu eru ýmsir fjárfestingarsjóðir.Kínverska fyrirtækið Tencent, sem er stærsta netfyrirtæki Asíu og það fjórða stærsta í heimi, keypti 15% hlut í Glu fyrir um 15 milljarða króna í apríl í fyrra, en Tencent er einnig á meðal stærstu hluthafa í Plain Vanilla.
Við kaupin tók Niccolo de Masi, forstjóri Glu Mobile, sæti í stjórn Plain Vanilla en þar að auki öðlast Glu kauprétt á öllu hlutafé Plain Vanilla á fyrirfram umsömdu verði. Kauprétturinn gildir í 15 mánuði frá fjárfestingunni.