Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, hefur tengst minnst fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveim aflandsfélögum. Þetta kemur fram í gögnum sem uppljóstrarar létu Le Monde, Süddeutshe Zeitung og ICJ fá og kallast Swiss Leaks og Panama Papers. Greint frá þessu í frétt á heimasíðu Reykjavik Media í dag. Auk þess birtist fréttin víða annarsstaðar í heimspressunni, meðal annars á vef The Guardian og á vef Suddeutche Zeitung.
Í fréttum miðlanna segir m.a. að Moussaieff-fjölskyldan, þar á meðal systur Dorritar, þæ Tamara og Sharon, hafi átt reikninga með allt að 80 milljón dala innstæðum í HSBC bankanum í Sviss á árunum 2006 og 2007. Þar kemur þó sérstaklega fram að Dorrit virðist ekki sjálf koma að flestum reikningunum. Auk þess sýni upplýsingarnar að Dorrit hafi átt hlut á móti fjölskyldu sinni í Jaywick Properties Inc, sem skráð er til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum og félaginu Moussaieff Sharon Trust. Sérstaklega er tekið fram að gögnin sýni ekki fram á að forsetafrúin hafi gert neitt ólöglegt.
Á vef Reykjavik Media segir að Dorrit hafi ekki viljað svara spurningum um hvort hún tengdist félögunum þegar eftir því var leitað. Viðskipti sín hefðu alltaf verið í samræmi við lög og að þau væru einkamál.
Neitaði að eitthvað ætti eftir að koma í ljós um sig eða fjölskyldu sína
Kjarninn greindi frá því i síðustu viku að félag í eigu fjölskyldu Dorritar átti félag skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005. Félagið, sem heitir Lasca Finance Limited, er að finna í gögnum frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Árið 2005 seldi fjölskyldufyrirtækið Moussaieff Jewellers Ltd. tíu prósenta hlut sinn í Lasca Finance til hinna tveggja eigenda þess. Þeir voru S. Moussaieff og „Mrs." Moussaieff. Þetta sýndu gögn sem Kjarninn og Reykjavík Grapevine eru með undir höndum.
Nokkrum dögum áður, nánar tiltekið föstudaginn 22. apríl, hafði Ólafur Ragnar farið í viðtal til fréttakonunar Christiane Amanpour, á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN. Amanpour spurði Ólaf Ragnar um Panamaskjölin og hreint út hvort hann eða fjölskylda hans væri tengd aflandsfélögum: „Átt þú einhverja aflandsreikninga? Á eiginkona þín einhverja aflandsreikninga? Á eitthvað eftir að koma í ljós varðandi þig og fjölskyldu þína?” spurði hún. Ólafur var afdráttarlaus í svörum: „Nei, nei, nei, nei, nei. Það verður ekki þannig.”
Kjarninn beindi fyrirspurn til embættis forseta Íslands vegna Lasca Finance í síðustu viku. Í svari þess segir: „Hvorki forseti né Dorrit vita neitt um þetta félag né hafa heyrt af því áður. Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi."