Craig Wright, ástralskur tölvunarfræðingur og kaupsýslumaður, hefur uppljóstrað að hann hafi búið til nefgjaldmiðilinn bitcoin í nafni Satoshi Nakamoto. Þetta kemur fram á vef BBC en þar viðurkennir hann að hafa siglt undir fölsku flaggi og að hafa búið til dulnefni undir því yfirskini að fela sitt raunverulega nafn. Mörgum spurningum er þó ósvarað í sambandi við opinberun Wright og ekki eru allir sannfærðir um hann sé sá sem hann segist vera.
Bitcoin var fundið upp árið 2008 og kynnt ári seinna. Myntin var hugsuð sem nýr gjaldmiðill og ný greiðsluleið. Með bitcoin var miðstýringu banka með gjaldmiðilinn eytt. Myntin var byggð til að frjálst flæði fjármagns gæti átt sér stað með landamæralausum gjaldmiðli en þannig kom gjaldmiðillinn í veg fyrir að gjaldeyrishöft gætu aftrað sér.
Vildi í raun ekki opinbera sig
Wright segir að sumir muni trúa honum og sumir ekki. Honum sé í rauninni alveg sama. Hann tekur það fram að hann sé aðalstofnandi gjaldmiðilsins en að aðrir hafi þó hjálpað honum. Hann segist alltaf hafa viljað halda þessum upplýsingum leyndum og að hann vilji í raun hafa það þannig áfram. Til þess að sanna að hann væri skapari bitcoin lagði hann fram tæknilegar sannanir og með því að nota peninga sem aðeins skapari miðilsins gæti átt. En þrátt fyrir það er mörgum spurningum ósvarað.
En af hverju kemur Wright fram með þessar upplýsingar núna? Hann segir að hann hafi ekki haft neitt um það að ráða. Að ákveðnir aðilar hafi ákveðið það fyrir hann. Hann óskar þess að fjölskylda hans, vinir og samstarfsfélagar verði látnir í friði.
Vill ekki peninga, frægð eða aðdáun
Hann tekur það fram að þetta sé í fyrsta og síðasta skiptið sem hann kemur fram fyrir framan myndatökuvél. Að eftir þetta viðtal BBC muni hann ekki aftur koma fram í fjölmiðlum.
Wright segir að hann vilji halda áfram að vinna og stefni á að gera það. Hann vilji ekki peninga, frægð eða aðdáun fólks, hann vilji bara vera látinn í friði. Hann segist ekki vilja viðurkenningu eða verðlaun fyrir störf sín.
Auroracoin snýr aftur
Íslenska útgáfan af bitcoin kallast auroracoin og kom í gagnið vorið 2014. Nú liggur fyrir að kauphöll með auroracoin muni opna á morgun, þriðjudaginn 3. maí, þar sem hægt verður að kaupa og selja netgjaldmiðilinn. Þetta kom fram í frétt Viðskiptablaðsins fyrir helgi.
Kjarninn fjallaði um rafmyntir í viðtali við Bandaríkjamanninn David Lio sem sérhæfir sig í slíkum myntum. Hann sagði að honum hefði fundist hugmyndin um auroracoin áhugaverð frá upphafi. Núna þegar hugbúnaðurinn væri til staðar og opinn öllum væri afar áhugavert að huga frekar að dreifingarleiðum rafmynta. Hann bætti við að honum hefði litist vel á Ísland sem tilraunavettvang rafmyntar þar sem allir fengu sinn ókeypis skammt. Þannig væri hægt að sjá hvað gerist þegar heilt samfélag verður meðvitað um rafmynt.
Í greininni kom einnig fram að frægasta og jafnframt verðmætasta rafmyntin væri bitcoin en til eru margar mismunandi rafmyntir. Auroracoin væri sú fyrsta sinnar tegundar þar sem útdeiling myntarinnar byggir á landfræðilegum grunni. Aldrei áður hefði rafmynt verið dreift til íbúa á ákveðnu svæði eins og raunin varð í mars 2014 þegar Íslendingar gátu sótt sinn skammt af aurum.