Hörður Þórhallsson, sem ráðinn var framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála í fyrrahaust, mun hverfa til annarra starfa og starf framkvæmdastjóra verður auglýst til umsóknar á næstunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.
Tilkynnt var um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála með viðhafnarkynningu í Hörpu í byrjun október 2015. Hlutverk Stjórnstöðvarinnar átti að verða að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni var ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020. Hún var sett á laggirnar á grundvelli samkomulags milli ríkistjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði í tíu fulltrúa í stjórn Stjórnstöðvarinnar. Fjórir ráðherrar eiga þar sæti, fjórir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjonustunnar og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er formaður Stjórnstöðvarinnar.
Hörður var ráðinn í starfið á sama tíma af atvinnuvegaráðuneytinu. Þar var hann með verktakasamning og fékk 1.950 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Stjórn Stjórnstöðvarinnar tók ákvörðun um ráðningu hans og staða framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst.
Ráðningarferlið þótti mjög umdeilt og var gagnrýnt víða í samfélaginu. Ragnheiður Elín sagði í viðtali við Spegilinn í á þeim tíma að nýskipuð stjórn Stjórnstöðvarinnar hafi viljað „þungarvigtarmann" í stöðu framkvæmdastjóra. Þau hafi orðið þess áskynja að Hörður væri á lausu og Ragnheiður Elín sagði að hann hefði uppfyllt þau skilyrði sem sett hefðu verið fyrir starfinu.
Stofna félag um rekstur Stjórnstöðvar
Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu sem send var út í dag segir að íslenska ríkið og Samtök ferðaþjónustunnar hafi í dag stofnað formlega sérstakt sameignarfélag utan um rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Nafn þess er Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála og er það í 50 prósent eigu ríkissjóðs og 50 prósent eigu Samtaka ferðaþjónustunnar.
Tilgangur hins nýstofnaða félags er að halda utan um starfsmannamál og almennan rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Starfsmenn félagsins skulu sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin af Stjórnstöð ferðamála í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Samtök ferðaþjónustunnar gáfu út í október 2015.