Dorrit Moussaieff er skráð án lögheimilis eða heimilisfestu í Bretlandi vegna skattamála. Þetta er fullyrt í frétt á vef Guardian sem birtist í gær. Orðrétt segir í fréttinni:
„Að auki benda HSBC skrárnar til þess að Moussaieff, sem er skráð utan lögheimilis í Bretlandi (e. non-domicile) vegna breska skattsins, átti að erfa stærri hlut af aflandsauðæfum fjölskyldunnar þegar móðir hennar, hin 86 ára Alisa, deyr.”
Embættið segir Dorrit borga sína skatta í Bretlandi
Kjarninn sendi fyrirspurn til forsetaembættisins í morgun vegna málsins og spurði hvort þetta væri rétt: Að Dorrit væri ekki með löggilda heimilisfestu í Bretlandi eins og gert hefur verið ráð fyrir. Þau svör fengust frá embættinu að Dorrit væri vissulega skráð með búsetu í Bretlandi (e. resident) og borgi þar sína skatta, samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefði fengið. Annað fékkst ekki fullyrt frá embættinu varðandi frétt Guardian.Færði lögheimilið frá Íslandi en tilgreindi ekki hvert
Dorrit flutti lögheimili sitt frá Íslandi í desember 2012 og voru fréttir fluttar af því í júní 2013. Hún sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið að flutningurinn væri gerður á grundvelli skattalaga, til að geta sinnt vinnu sinni og öldruðum foreldrum í London. Þetta gerði hún þegar horfur voru á að Ólafur Ragnar yrði ekki lengur forseti. Hún sagði þó ekki hvert hún væri að flytja lögheimili sitt, heldur gengu íslenskir fjölmiðlar bara út frá því þar sem hún var skráð þar í Þjóðskrá. Hún greiddi ekki auðlegðarskatt hér á landi. Það kom þó skýrt fram að hún væri að flytja til Bretlands.
Fram kom í yfirlýsingu Dorritar frá þeim tíma að að svo geti verið ástatt hjá hjónum að annar makinn sé skattskyldur ótakmarkað vegna heimilisfesti hér á landi, en hinn makinn með takmarkaða skattskyldu, það er ekki með lögheimili. Ákvæðin eigi einkum við erlenda ríkisborgara og tvísköttunarsamninga.
Samkvæmt Þjóðskrá er Dorrit skráð í Bretlandi. Utan lögheimilis (e. non-domicile) er skilgreint á vef bresku ríkisstjórnarinnar sem staða breskra ríkisborgara sem hafa aðalaðsetur utan Bretlands og þurfa því mögulega ekki að greiða tekjuskatt af erlendum tekjum.
Í umfjöllun Guardian um fólk utan lögheimilis segir: „Þetta er einstök staða fólks sem þekkist hvergi utan Bretlands. Þetta gerir milljarðamæringum (e. ultra-wealthy) kleyft að fæðast, alast upp og búa á Bretlandi, og borga samt mun lægri skatta heldur en aðrir breskir ríkisborgarar, á fullkomlega löglegan hátt.”
Dorrit tengist sjálf aflandsfélögum
Frétt Guardian var birt að tilefni fregna gærdagsins um að Dorrit hafi tengst minnst fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveim aflandsfélögum. Það kom fram í gögnum sem uppljóstrarar létu Le Monde, Süddeutshe Zeitung og ICJ fá og kallast Swiss Leaks og Panama Papers. Greint frá þessu í frétt á heimasíðu Reykjavik Media í gær. Auk þess birtist fréttin víða annarsstaðar í heimspressunni, meðal annars á vef The Guardian og á vef Suddeutche Zeitung.