Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Frakklandi, ætlar ekki að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hún tilkynnti það rétt í þessu á Facebook.
Þar segir Berglind:
„Ég hef að undanförnu íhugað það gaumgæfilega að gefa kost á mér í framboð til embættis forseta Íslands. Meginástæður þess eru tvær. Annars vegar hef ég talið reynslu mína í margvíslegum störfum fyrir íslenska þjóð á undanförnum árum geta nýst á forsetastóli og hins vegar hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að forseti geti verið öflugur málshefjandi og jafnframt þátttakandi í brýnni umræðu.
Í þeim efnum hef ég einkum í huga einlægt og yfirvegað samtal um mannauð íslenskrar þjóðar, bæði þeirra sem hér eru fæddir og hinna sem til okkar hafa flust frá öðrum löndum. Ég hef líka verið upptekin af þeim atgervisflótta sem við okkur blasir og hvernig unnt sé að skapa ungu fólki á Íslandi þannig aðstæður að við missum það ekki frá okkur. Ég er sannfærð um að forseti Íslands geti orðið mikilvægur aflvaki umræðu um hvernig við getum sett okkar langstærstu auðlind, fólkið í landinu, í öndvegi.
Ísland hefur alla burði til þess að fóstra íbúa sína með þeim hætti að þeim líði vel, lifi saman í sátt og vilji hvergi annars staðar vera. Það getur líka breitt út faðm sinn og tekið á móti ferðamönnum þannig að sómi sé að. Ef vel er að málum staðið geta þeir sem byggja þetta land eða sækja það heim notið allsnægta sem óvíða finnast meiri. Embætti forseta Íslands á að leggja sitt af mörkum til þess að traustur vörður sé staðinn um þau verðmæti sem við eigum mest. Þar langaði mig til að leggja mitt af mörkum.
Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi víða að úr samfélaginu, ekki síst frá konum og ungu fólki. Mér þykir afar mikið til þessa koma en hef engu að síður tekið þá ákvörðun að láta staðar numið í þessum hugrenningum. Ég mun því ekki verða á meðal þátttakenda í aðdraganda forsetakosninganna en óska stórum hópi frambjóðenda velgengni og sömuleiðis þeim sem hlutskarpastur verður að leik loknum."
Árétting: Fyrir mistök stóð í fyrirsögn fréttarinnar við fyrstu birtingu að Berglind ætlaði í forsetaframboð. Það var leiðrétt innan við mínútu síðar. Beðist er afsökunar á þessum mistökum.