Ted Cruz hefur hætt framboði sínu og sækist ekki lengur eftir því að verða forsetaefni Repúblíkanaflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust. Það þýðir að Donald Trump verður forsetaefni flokksins. Reince Priebus, formaður flokksins, hefur lýst þessari niðurstöðu yfir opinberlega.Þetta gerðist í kjölfar þess að Trump vann stórsigur á Cruz í forkosningum í Indiana-ríki í nótt. Cruz var eini frambjóðandinn utan Trump sem enn var eftir í kapphlaupinu.
Trump, sem hefur verið heldur óvægin í garð Cruz að undanförnu, hrósaði keppinaut sínum í sigurræðu. Hann sagðist ekki vita hvort Cruz væri vel við sig eða ekki en að hann væri rosalegur keppnismaður. „Hann á ótrúlega framtíð fyrir sér.“
Demókratamegin sigraði Bernie Sanders mjög óvænt í Indiana-ríki og neitar að gefast upp í baráttu sinni við Hillary Clinton um að verða forsetaefni demókrata. Sanders sagði að kosningavél Clinton héldi að baráttan væri unnin. „Þau hafa rangt fyrir sér,“ sagði Sanders.
Kjarninn fjallaði ítarlega um herstefnu Donald Trump í byrjun viku. Þá umfjöllun má lesa hér.