Auður Finnbogadóttir er hætt sem stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti henni lausn frá setu í stjórn stofnunarinnar með bréfi sem dagsett var 18. apríl 2016. Daginn eftir, þann 19. apríl, var Auður kosin í stjórn Íslandsbanka.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skipaði nýja stjórn Samkeppniseftirlitsins þann 1. desember 2015. Auður var skipuð formaður stjórnarinnar í stað Kristínar Haraldsdóttur sem baðst lausnar frá stjórnarsetu. Skipunin átti að gilda til 26. ágúst 2017. Fjórum og hálfum mánuði eftir að hafa verið skipuð í starfið var Auður hins vegar tilnefnd af Bankasýslu ríkisins sem nýr stjórnarmaður í Íslandsbanka. Hún hlaut síðan kjör sem slíkur 19. apríl 2016.
Íslandsbanki er nú kominn að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins í kjölfar þess að hlutabréf slitabús Glitnis í bankanum voru afhend ríkinu sem stöðugleikaframlag. Bankasýslan, sem mun fara með eignarhlut ríkisins í bankanum, skipaði því sjö aðalmenn í stjórn Íslandsbanka í apríl, þar af fimm nýja. Auður var einn þeirra.Samkeppniseftirlitið heimilaði yfirtöku íslenska ríkisins á Íslandsbanka þann 11. mars síðastliðinn, með skilyrðum sem aðilar málsins hafa sæst á að fylgja.
Ekki er búið að skipa nýjan mann í stjórn Samkeppniseftirlitsins í stað Auðar. Þangað til gegnir Eyvindur G. Gunnarsson stöðu stjórnarformanns og varamenn taka sæti í þriggja manna stjórn stofnunarinnar.