Félagsfundur Veiðifélags Mývatns, sem haldinn var í gær, skorar á „þartilbær yfirvöld að beita sér fyrir auknum fjárframlögum til rannsókna og aðgerða vegna síendurtekinna áfalla í lífríki Mývatns og Laxár.“ Þetta segir í ályktun sem félagsfundur samþykkti, en Helgi Héðinsson á Geitareyjarströnd sendi ályktunina til fjölmiðla í dag.
Í henni segir enn fremur, að frekari rannsóknir á svæðinu þoli enga bið. „Vatnið sýnir skýr einkenni ofauðgunar. Það ástand er lítt þekkt í vötnum hér á landi en hins vegar mikið og alvarlegt vandamál víða erlendis. Á síðustu árum hefur þörungablómi (leirlos) í Mývatni aukist mjög mikið og líftími hans fram á haustið lengst. Afleiðingin er mikil eyðing á botngróðri. Formlega er viðurkennt að kúluskíturinn sé útdauður úr vatninu og annar gróður á hröðu undanhaldi. Arður af silungsveiðum hefur enginn verið í mörg ár og flestum andategundum fækkar. Af viðbrögðum innlendra vísindamanna er ljóst að rannsóknir á þessum aukna þörungablóma, orsökum hans, afleiðingum og hvað er til úrbóta, eru allt of skammt á veg komnar,“ segir í ályktuninni.
Þá er á það minnt að Mývatn og Laxá séu vernduð með sérlögum. „Mývatn og Laxá eru vernduð með sérlögum og voru ásamt Þjórsárverum fyrstu svæðin sem Íslendingar tilnefndu á alþjóðlegan verndarlista Ramsar. Svæðið er þekkt um allan heim sem náttúrugersemi sem standa beri séstakan vörð um. Það væri okkur Íslendingum mikill álitshnekkir að bregðast ekki fljótt og vel við í þessu viðkvæma máli. Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir eru dýrari en svo að 400 manna samfélag standi undir kostnaðinum. Því heitir Veiðifélag Mývatns á Alþingi og ríkisstjórn að axla sinn hluta ábyrgðarinnar og sýna að lögin um vernd Mývatns og Laxár séu meira en orðin tóm. Heimamenn þurfa aðstoð, bæði í formi fjár og fagþekkingar til að möguleiki sé á að snúa þessari óheillaþróun við,“ segir í ályktun veiðifélagsins.