Uppljóstrarinn sem kom Panamaskjölunum til fjölmiðla úr panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca vill að vernd uppljóstrara verði lögfest í heiminum. Hann segist í yfirlýsingu reiðubúinn að aðstoða stjórnvöld við skattrannsóknir.
Heimildarmaðurinn, sem kemur ekki fram undir nafni, segist ekki vera njósnari. Ástæða þess að hann kom um 11,5 milljón gögnum til þýska dagblaðsins Süddeutche Zeitung og ICIJ, alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna, var sú að honum ofbauð notkun auðmanna heimsins á skattaskjólum og öllu óréttlætinu sem því fylgir. Hann segist ekki vinna fyrir neina opinbera stofnun og hafi aldrei gert. Allt sem hann hafi gert byggi einungis á hans skoðunum.
„Tekjuójöfnuður er eitt af stærstu málum okkar tíma. Hann hefur áhrif á okkur öll, alls staðar í heiminum. Umræðan um öran vöxt tekjuójöfnuðar hefur staðið um árabil, þar sem stjórnmálamenn, fræðimenn og aktivistar hafa ekki getað stöðvað hann þrátt fyrir óteljandi ræður, tölfræðigreiningar, nokkur mótmæli og stöku heimildarmyndir. Enn stendur spurningin eftir: Af hverju? Og af hverju núna?” segir í yfirlýsingunni, sem má lesa á íslensku í heild sinni inni á vef Reykjavík Media og á ensku inni á vef Guardian. „Svarið við þessum spurningum er skýrt í Panamagögnunum; gríðarleg, gegnsýrð spilling. Og það er ekki tilviljun að svörin skuli koma frá lögmannsstofu – sem er ekki bara tannhjól í maskínu „auðstjórnunar“ því Mossack Fonseca notaði áhrif sín til að skrifa og beygja lög um allan heim til að þjóna hagsmunum glæpamanna um áratugaskeið. Í tilviki eyjunnar Nieu rak lögmannsstofan í raun skattaskjól frá upphafi til enda. Ramón Fonseca og Jürgen Mossack vilja að við trúum því að skúffufélög stofunnar, sem stundum eru kölluð „farartæki með sérstakan tilgang“ séu eins og bílar. En sölumenn notaðra bíla skrifa ekki lög. Og eini „sérstaki tilgangur“ þessara farartækja sem þeir bjuggu til var of oft svik, af gríðarstórum skala.”