Embætti ríkisskattstjóra er nú með í undirbúningi að véltaka CFC-eyðublöð sem aflandsfélagaeigendur eiga að fylla út og skila með skattframtölum sínum. „Þegar því verki verður lokið mun útfylling eyðublaðanna verða ófrávíkjanleg.“ Skattframtöl þar sem reynir á eignarhald lögaðila erlendis eru þannig í dag að vélræn yfirferð þeirra er ekki framkvæmanleg. Þetta kemur fram í svari Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra við fyrirspurn Kjarnans um skil á CFC-framtölum.
Kjarninn spurði Skúla Eggert annars vegar hvort leyfilegt væri við framtalsgerð að horfa í gegnum aflandsfélög eins og þau hafi aldrei verið til og skrá eignir þess sem beinar eignir framteljanda í stað þess að skila CFC-framtali, og hins vegar að ef framteljandi gerir slíkt, hafa skattayfirvöld þá einhverjar leiðir til að sannreyna að slík leið skili hærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við CFC-leiðina?
Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, birti í morgun bloggfærslu þar sem fram kom að framtal vegna aflandsfélagsins Wintris, sem er skráð á Bresk Jómfrúareyjunum, hafi ekki verið í samræmi við CFC-löggjöfina. Þar kom einnig fram að við framtalsgerð þeirra hjóna hafi „verið horft í gegnum félagið eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svo kallaðar CFC-reglur tóku gildi. Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri (og skila CFC-framtali) hefur skilað sér í hærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við atvinnurekstrar-/CFC-leiðina.“
Í færslu Sigmundar Davíðs segir einnig að skattayfirvöld hafi aldrei gert athugasemdir við með hvaða hætti talið var fram.
Í svari Skúla Eggerts, sem er almennt en fjallar ekki sértækt um skattskil fyrrverandi forsætisráðherra, segir að samkvæmt lögum beri að skila með skattframtali einstaklinga CFC eyðublöðum ef tilefni er til þess og leiða skattstofna út eins og þar kemur fram. „Ef hlutaðeigandi skattaðili leiðir skattstofna réttilega út á skattframtali sínu eða fylgiblaði með því án þess að fylla út CFC eyðublöð er ekki gerð sérstök athugasemd við þann framtalsmáta verði skattstofnar réttilega ákvarðaðir. Ef vafi er á slíku er skorað á framteljanda að bæta úr og skila CFC eyðublöðunum ásamt fylgigögnum.“
Skúli Eggert segir að í sjálfu sér sé sú aðferð að horfa í gegnum aflandsfélög og færa eignir og tekjur beint inn í framtöl í samræmi við meginsjónarmið laga um tekjuskatt þótt tæknileg útfersla reglugerðar frá árinu 2013 sé eilítið frábrugðin. „Eyðublöðin um CFC eru fyrst og fremst verkfæri til að leiða fram skattstofna en breyta í sjálfu sér engu um yfirferð skattframtala eða skattskylduna, hvort eyðublöðin séu fyllt út eða skattstofnar leiddir fram með öðrum hætti. Skattframtöl þar sem reynir á eignarhald lögaðila erlendis eru þannig að vélræn yfirferð er ekki framkvæmanleg. Ríkisskattstjóri hefur nú í undirbúningi að véltaka CFC eyðublöð þar sem tilteknir reitir verða númeraðir. Þegar því verki verður lokið mun útfylling eyðublaðanna verða ófrávíkjanleg.“