Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, hefur sagt starfi sínu lausu frá og með næstu mánaðarmótum. Í frétt á heimasíðu félagsins segir hann að á undanförnum árum hafi hann tekið þátt í undirbúningi fyrirtækis í flugtengdri starfsemi, sem liggi nærri áhugasviði hans. „ Nú lítur út fyrir að þetta geti orðið að veruleika og því rétt að hverfa á braut úr núverandi starfi til að einhenda mér í verkefni á nýjum vettvangi. Ég hverf afskaplega sáttur og þakklátur á brott, en stuðningur samfélagsins hér og góður hugur hefur verið mér mikilvægur. Þetta er búinn að vera skemmtilegur tími og ég skil við félagið í góðu horfi með spennandi verkefni í farvatninu."
Þar er einnig haft eftir Unnari Jónssyni, stjórnarformanni Atvinnuþróunarfélagsins, að það væri mikill missir af Þorvaldi.
Þorvaldur hlaut 18 mánaða dóm í Stím-málinu svokallaða í héraðsdómi Reykjavíkur í desember 2015. Stjórn Atvinnuþróunarfélagsins lýsti í kjölfarið yfir fullu traustu á honum. Hann var dæmdur fyrir hlutdeild í umboðssvikum. Þorvaldur var forstjóri og eigandi í fjárfestingabankanum Sögu Capital þegar umboðssvikin áttu að hafa átt sér stað. Það mál er nú í áfrýjunarferli.