Bill Gates, sem stofnaði Microsoft tölvufyrirtækið og er ríkasti maður heims, er á meðal þeirra sem munu fjárfesta í nýju fimm stjörnu hóteli sem rísa á við hlið Hörpunnar í náinni framtíð. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag þar sem segir einnig að fjármögnun verkefnisins sé komin langt á veg og að bæði íslenskir og erlendir aðilar muni koma að henni.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var greint frá mögulegri aðkomu Gates að verkefninu í ræðu sem einn eiganda Carpenter & Company, bandarísks fyrirtækis sem stendur fyrir byggingu hótelsins, flutti á fundi sem sendinefnd Amerísk-íslenska viðskiptaráðið hélt í Boston fyrir rúmri viku síðan.
Haraldur Flosi Tryggvason, lögmaður Carpenter & Company á Íslandi, vildi ekki tjá sig um málið þegar Morgunblaðið leitaði eftir upplýsingum um það. Marriott Edition, sem rekur keðju lúxushótela um allan heim, mun reka hótelið eftir að það verður byggt og hefur þegar tryggt sér 50 ára rekstrarleyfi en Carpenter & Company mun byggja það. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 16 milljarðar króna en um 250 herbergi verða á hótelinu.
Bill Gates er ríkasti maður heims samkvæmt lista Forbes-tímaritsins sem birtur var fyrr á þessu ári. Auður hans er metinn á 75,8 milljarða dali, eða um 9.400 milljarða íslenskra króna.