Fyrrverandi eigendur og stjórnendur fjárfestingafélagsins Sunds, sem síðar var endurnefnt IceCapital, eru með prókúru í þremur félögum sem skráð eru til heimilis á lágskattarsvæði á Seychelles-eyjum. Félögin þrjú voru stofnuð af panömsku lögmannsstofunni Mossack Fonseca í febrúar 2011, tveimur og hálfu ári eftir hrun. Þau heita Orangel S.A., Xperia Trading S.A. og Tangon Consulting S.A. Frá þessu er greint í Stundinni í dag en umfjöllun hennar er hluti af úrvinnslu úr Panamaskjölunum svokölluðu, sem fer fram í samstarfi við Reykjavík Media.
Þar segir enn fremur að Páll Þór Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sunds/IceCapital hafi verið með prókúruumboð fyrir öllu félögin. Auk þess hafi eiginkona hans, Gabríela Kristjánsdóttir, bróðir hennar Jón Kristjánsson og móðir þeirra Gunnþórunn Jónsdóttir verið hvert um sig með prókúruumboð fyrir eitt félag. Fjárfestingafélagið Sund/IceCapital varð til utan um auð Óla Kr. Sigurðsson, fyrrum forstjóra og eiganda Olís, sem lést árið 1992. Gunnþórunn er ekkja Óla og Jón og Gabríela eru börn hennar af fyrra hjónabandi.
Milljarða kröfur en litlar sem engar eignir
Sund/IceCapital var lýst gjaldþrota árið 2012 og námu lýstar kröfur í búið um 51 milljarði króna. Margir kröfuhafar félagsins drógu það árum saman í efa að það ætti sér tilverurétt eftir hrunið og töldu að félaginu hefði verið haldið á lífi til að koma undan eignum. Skiptastjóri félagsins sagði við Fréttablaðið í apríl að stjórnendur félagsins, þeir Páll og Jón, teldust eignarlausir á Íslandi en þeir hefðu flutt lögheimili sín út fyrir landsteinanna eftir bankahrun. Fjöldi félaga í þeirra eigu hefur verið færður í erlent eignarhald á síðustu árum. Vegna þessa hefur búinu gengið illa að innheimta skuldir þeirra.
Á meðal þeirra gjörninga sem reynt hefur verið að rifta var sá a selja fasteignir út úr dótturfélagi Sunds/ IceCapital í lok árs 2008 til félags í eigu Páls. Skuldir dótturfélagsins, Ice Properties ehf., sem voru á bilinu 600-700 milljónir króna, voru færðar inn í ógjaldfært móðurfélagið. Lánardrottinn var VBS fjárfestingarbanki en Páll Þór Magnússon var stjórnarformaður bankans þegar lánið var veitt. Fasteignirnar sem um ræðir eru Austurstræti 20 (Hressingarskálinn), 6. og 7. hæð í Kringlunni 4-6 og tvær fasteignir við Digranesveg í Kópavogi. Slitastjórn VBS, en sá banki sem Sund/IceCapital hafði átt hlut í var þá kominn í þrot, vildi meina að undirskriftarreglum VBS hafi ekki verið fylgt með tilfærslu lánsins, en Jón Þórisson, þáverandi forstjóri VBS, skrifaði einn undir hana. Þetta mál hefur auk þess verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, sem nú heitir héraðssaksóknari.
Þetta er fjarri því eina málið sem snýr að „Sundurum“ sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum eða sem hefur ratað fyrir dómstóla. Í apríl var til að mynda greint frá því í Fréttablaðinu að Páll hefði selt eiginkonu sinni helmingshlut í 370 fermetra einbýlishúsi í Garðabæ fimm dögum eftir að hann var dæmdur til að greiða þrotabúi félagsins um 120 milljónir króna. Fasteignamat hússins er 87 milljónir króna. Þrotabúi Sund/IceCapital hefur ekki tekist að innheimta þá skuld sem Páll var dæmdur til að greiða því.
2. október 2014 var þrotabúi Sund/IceCapital dæmdar 520 milljónir í Héraðsdómi Reykjaness. Dómurinn var vegna riftunar á ýmsum gerningum stjórnenda félagsins sem áttu sér stað eftir bankahrunið, haustið 2008 og snemma árs 2009. Skiptastjóri þrotabús IceCapital sagði við Fréttablaðið að fyrrverandi helstu stjórnendur félagsins, Páll og Jón, skuldi búinu tæpar 350 milljónir króna með dráttarvöxtum.
Annað riftunarmál sem dæmt var í í október 2014 snéri að sölu á 2/3 hlutar í þyrlufyrirtækinu Norðurflugi út úr Sund/IceCapital í desember 2008. Norðurflug er nú í eigu erlendra félaga sem tengjast eigendum IceCapital. Fyrirtækið hagnaðist um 160 milljónir króna á árunum 2013 og 2014. Þá seldu hluthafar í Norðurflugi þriðjungshlut í því til Air Greenland síðasta sumar á 200 milljónir króna.
Töldu sig fórnarlömb markaðsmisnotkunar
Þeir Páll og Jón hafa löngum borið fyrir sig að hafa verið blekktir í viðskiptum við íslenska banka í rekstri Sunds/IceCapital. Síðla árs 2010 tók héraðsdómur Reykjavíkur fyrir mál Arion banka gegn félaginu vegna vanefnda á lánasamningi. Í málinu bar lögmaður Sund/IceCapital, fyrir sig að félagið hefði verið misnotað markaðsmisnotkunartilburðum Kaupþings, fyrirrennara Arion banka, til að kaupa hlutabréf bankanum til að hafa áhrif verðmyndun hans. Þá hafi rekstur Kaupþings eftir árið 2006 verið „einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans" og fjárfestar hafi „bæði verið blekktir og beittir svikum".
Í málatilbúnaði Sunds/IceCapital sagði auk þess að stjórnendur Kaupþings hafi „á árunum 2007 til 2008 unnið markvisst þágu einstakra hluthafa sinna og tekið stöðu gegn íslensku krónunni". Á grundvelli þessara raka fór lögmaður Sund/IceCapital fram á að skjólstæðingar hans yrðu ekki bundnir af lánasamningnum. Héraðsdómur hafnaði þessum rökum og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu nokkrum mánuðum síðar. Sund/IceCapital var gert að greiða Arion banka 3,5 milljarða króna.
Sami hópur var aftur mættur fyrir dómstóla vorið 2011, nú vegna dótturfélags Sunds/IceCapital, Iceproperties, sem eigendurnir vildu ekki gefa upp til gjaldþrotaskipta þrátt fyrir himinháar skuldir. Í málflutningi fyrir dómi kom fram í máli lögmanns Iceproperties að hann teldi skjólstæðinga sína hafa verið fórnarlömb markaðsmisnotkunar af hendi Glitnis banka þegar þeir keyptu bréf í honum fyrir um átta milljarða króna, sem voru fengnir að láni hjá Glitni. Dómstólar féllust ekki á þessi rök og Iceproperties var gefið upp til gjaldþrotaskipta.