Vísindamenn hafa fundið nýja trjátegund og er þetta fyrsta nýja tegundin sem finnst í 47 ár. Starfsmenn konunglega Grasagarðsins í Edinborg hafa stundað rannsóknir á á eyjunni Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi í 17 ár, en á eyjunni er afar sérstætt samansafn af flóru. Tréð, sem er af sömu ættkvísl og apaþrautatré, eða apahrellir (Araucaria, e. Monkey Puzzle), sem hafa fundist víða í Nýju Kaledóníu, hvar er að finna þrettán tegundir af trénu. Trén vaxa einnig í Ástralíu, Chile og víðar í Suður-Ameríku. Talið var að einungis 19 tegundir væru til af þessari ættkvísl, en í raun eru þær að minnsta kosti 20. Fréttavefur Skógræktar ríkisins greinir frá þessu.
Fannst fyrir tilviljun
Lífríki eyjunnar hefur verið ógnað vegna nikkelframleiðslu. Hin nýja tegund fannst, fyrir algjöra tilviljun, á stað þar sem til stendur að grafa fyrri nýrri nikkelnámu. Á seinni hluta síðasta árs komu skosku vísindamennirnir auga á nokkur tré sem virtust frábrugðin öðrum - og var það rétt athugað. Í ljós kom að laufin, eða nálarnar, voru stærri en á öðrum apaþrautatrjám og lögun könglanna önnur.
Fram kemur á vef Skógræktarfélagsins að með ítarlegum rannsóknum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að hin nýju tré væru nægilega frábrugðin öðrum Araucaria-trjám til að þau gætu verið skilgreind sem ný tegund.
200 milljón ára gömul tegund í hættu
Enn er þó mikil vinna eftir við rannsóknir á erfðaefni tegundarinnar og er nú megináhersla lögð á verndun hennar á svæðinu. Útbreiðsla hennar á eyjunni virðist vera bundin við svæði þar sem á að hefja mikla framleiðslu á nikkel með námagröfti og tilheyrandi raski.
Ræktuð í görðum á Íslandi
Tréð hefur enn ekki fengið viðurkennt fræðiheiti, en er talin hafa vaxið á jörðinni í um 200 milljónir ára, eða á meðan risaeðlurnar réðu ríkjum. Hin eiginlegu apaþrautatré hafa verið ræktuð í görðum um allan heim í fjölda ára, enda eru þetta langlíf og nokkuð harðger, sígræn tré. Þau vaxa ekki hratt, en geta náð allt að 50 metra hæð. Vísindamennirnir gáfu í kjölfarið út grein í American Journal of Botany um rannsóknina og niðurstöðurnar. Þar kemur meðal annars fram að Norður-Kaledónía er ein mesta uppspretta nikkels á jörðinni.