„Þriðja sumarið í röð þurfa landsmenn að búa við aðstæður þar sem fámennur starfshópur lokar fyrir samgöngur til og frá landinu með verkfallsaðgerðum. Röskun hefur orðið á millilandaflugi og innanlandsflugi vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra með óþægindum fyrir farþega og tekjutapi aðila í ferðaþjónustu. Þar við bætist álitshnekkir Íslands sem ferðaþjónustulands.“
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í leiðara fréttabréfs SA. Hann segir launakröfur flugumferðarstjóra ganga langt fram úr öðrum kjarasamningum. „Kröfur flugumferðarstjóra um launahækkanir eru langt umfram hækkanir í öðrum kjarasamningum. Yrði gengið að kröfum þeirra raskaðist það dýrkeypta jafnvægi sem komist hefur á kjaramálin og hefðbundið íslenskt höfrungahlaup hefst á ný, þar sem hver hópur knýr fram meiri launahækkanir en sá sem síðast samdi. Afleiðingarnar eru vel þekktar; verðbólga eykst, vextir hækka og að lokum fellur gengið til að lagfæra samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem starfa í alþjóðlegri samkeppni. Niðurstaðan er sú að kjör allra versna til lengri tíma.“
Ekki kemur fram í leiðaranum hverjar kröfur flugumferðarstjóra eru nákvæmlega.
Þorsteinn segir að SALEK-samkomulagið í október 2015 hafi miðað að því að stöðvar „höfrungahlaup“ í launasamningum, og stöðugleiki sé nú kominn á. Kröfur flugumferðarstjóra sé þannig, að ekki sé hægt að verða við þeim. „Samkomulagið byggir á þeirri sýn að Íslendingar geti búið við sambærileg lífskjör og frændur okkar á Norðurlöndum. Þar var svigrúm til launahækkana til ársloka 2018 skilgreint en flugumferðarstjórar vilja nú fá mun meiri launahækkanir en aðrir vegna þess að þeir eru einfaldlega í þeirri stöðu að geta knúið þær fram. Um það verður aldrei sátt hjá öðrum hópum á vinnumarkaði nú fremur en áður þegar einstakir starfshópar hafa knúið fram mun meiri launahækkanir en aðrir hafa fengið. Kröfur flugumferðarstjóra eru því atlaga að samstöðu sem sköpuð var á vinnumarkaði haustið 2015 og fest var í sessi með endurskoðun kjarasamninga í upphafi ársins.“
Þorsteinn segir það vera veikleika á íslenskum vinnumarkaði að launahækkanir eru mun meiri en í nágrannalöndunum, án þess að skila betri lífskjörum eins og raunin sé þar. Þorsteinn segir skipta miklu máli, að halda í þau vinnubrögð sem var búið að sammælast um. Það er að horfa til þess að bæta lífskjör fólks. „Það er því mikið í húfi að ríkið láti ekki launadeilu við flugumferðarstjóra verða til að stefna stöðugleika á vinnumarkaði í voða, en deilan gæti dregið dilk á eftir sér. Íslenska ríkið annast flugumsjón á stórum hluta Norður-Atlantshafsins. Ítrekaðar launadeilur við flugumferðastjóra, og kröfur um margfaldar launahækkanir á við aðra, bjóða þeirri hættu heim að þjónustan flytjist úr landi. Enda renna önnur ríki hýrum augum til þessarar ábatasömu starfsemi. Engar náttúrulegar aðstæður kalla á að starfsemin sé rekin hér á landi en það væri miður ef sífelldar og óbilgjarnar verkfallsaðgerðir þessa fámenna starfshóps myndu hrekja þjónustuna frá Íslandi.