Rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8 prósent eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. á að ljúka í síðasta lagi 31. desember 2016. Einn maður mun skipa nefndina sem fer með þá rannsókn. Á grundvelli niðurstöðu hennar, og að lokinni yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, mun sú nefnd leggja mat á „hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. fyrrgreinda ályktun frá 7. nóvember 2012 þar um." Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu um rannsóknina sem Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, lagði fram seint í síðustu viku.
Þar segir einnig að þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lokið sinni yfirferð um málið og rannsókn rannsóknarnefndar á þátttöku Hauck & Aufhäuser liggur fyrir, verði „markvisst unnt að afmarka nánar mögulega rannsókn á grundvelli ályktunar Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf."
Því er þeim möguleika haldið opnum að ráðist verði í rannsókn á einkavæðingu þeirra banka sem íslenska ríkið átti hlut í, og voru seldir í einkavæðingarferlum í kringum síðustu aldarmót. Sú rannsókn yrði í samræmi við þingsályktunartillögu um að ráðast í slíka sem samþykkt var á Alþingi í nóvember 2012. Af henni hefur þó aldrei orðið. Ekkert er minnst á rannsókn á því sem kallað hefur verið síðari einkavæðing bankanna, þegar samið var við kröfuhafa föllnu bankanna um að eignast hluti í endurreistum bönkum á árinu 2009. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur ítrekað kallað eftir slíkri rannsókn.
Umboðsmaður opnar gamalt mál að nýju
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kallaði eftir því í bréfi sem hann sendi á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 19. maí síðastliðinn að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að kalla fram nýjar upplýsingar um aðkomu Hauck& Aufhäuser að kaupum S-hópsins svokallaða á Búnaðarbankanum árið 2003. Ástæðan væri sú að Tryggvi hefði undir höndum nýjar upplýsingar og ábendingar um raunverulega þátttöku Hauck & Aufhäuser, þýsks einkabanka, í kaupunum á Búnaðarbankanum.
Þegar kaupin áttu sér stað var málið kynnt þannig að Hauck & Aufhäuser væri á meðal kaupenda að bankanum og var aðkoma erlends banka talin styrkja stöðu S-hópsins gagnvart kaupunum. Sú skýring sem gefin var um aðkomu Hauck & Aufhäuser hefur lengi verið dregin í efa og því oft verið haldið fram í opinberri umræðu að bankinn hafi verið leppur.
Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögu um rannsókn á málinu segir að ekki liggi fyrir á þessu stigi í hverju þær upplýsingar sem umboðsmaður er með undir höndum séu fólgnar, hver sé uppruni þeirra eða með hvaða hætti þær eru til þess fallnar að upplýsa málið. „Leggja ber hins vegar áherslu á að ónafngreindur einstaklingur hefur snúið sér til umboðsmanns Alþingis með upplýsingar sem að mati umboðsmanns eru til þess fallnar að leiða í ljós hvar og hvernig megi afla gagna og upplýsinga um það hver hafi í raun verið þátttaka hins þýska banka í sölu á umræddum hlut í Búnaðarbanka Íslands hf. Í ljósi stöðu umboðsmanns sem trúnaðarmanns Alþingis og fyrri aðkomu hans að málinu, sem nefndarmaður í rannsóknarnefnd Alþingis á falli bankanna 2008, þykir ekki óvarlagt að leggja til grundvallar mat hans á að umræddar upplýsingar muni leiða í ljós hver var í raun aðkoma hins þýska banka að kaupum á eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf."