Útflutningur íslenskra sjávarafurða til Evrópusambandsríkja jókst um nítján prósent í fyrra, samkvæmt nýjum tölum frá framkvæmdastjórn ESB. Útflutningur sjávarafurða frá Íslandi jókst meira en frá nokkru öðru ríki.
Innflutningsbann Rússa, á afurðir frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Ástralíu og Íslandi, hafði mikil áhrif á viðskipti á heimsvísu, segir í útgáfu framkvæmdastjórnarinnar. Útflutningi á fiski og sjávarafurðum, sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum farið á rússneskan markað fór á aðra markaði, þar með talið ESB-markaðinn. Þetta gæti að hluta til útskýrt þá miklu aukningu sem varð í útflutningi íslenskra sjávarafurða þangað.
Íslenska matvæli voru sett á bannlista í Rússlandi í ágúst í fyrra, og bættist þá á langan lista ríkja sem viðskiptabann var sett á. Bannið var sett á sem svar við viðskiptaþvingunum ríkjanna á Rússland vegna framferðis þeirra í Úkraínu.
Nýlega ákváðu rússnesk stjórnvöld að framlengja innflutningsbannið til ársloka 2017 að minnsta kosti. Annars hefði bannið runnið út í ágúst.
Mikið var rætt um innflutningsbannið og áhrif þess á íslenskan sjávarútveg, þar sem Rússland hefur verið mikilvægur markaður, einkum þegar kemur að frosnum loðnuafurðum, makríl og síld. Ísland hefur orðið fyrir neikvæðari áhrifum af banninu en flest önnur ríki vegna þessa.
Mikill þrýstingur var settur á stjórnvöld að hætta þátttöku sinni í refsiaðgerðunum gegn Rússlandi, og hefur Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, greint frá því að hann hafi aldrei fundið fyrir viðlíka þrýstingi og í þessum málum. Bæði hann og eftirmaður hans, Lilja Alfreðsdóttir, hafa þó staðið föst á því að ekki verði hvikað frá þátttöku í aðgerðunum með öðrum vestrænum ríkjum.