Aðkoma þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003 verður rannsökuð af sérstakri rannsóknarnefnd sem mun hafa víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Rannsókn málsins á að vera lokið fyrir árslok og mun einn maður skipa rannsóknarnefndina. Þingsályktunartillaga þess efnis var samþykkt á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum.
Rannsóknin beinist sérstaklega að hlut þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Rannsóknin verður framkvæmd eftir ábendingu Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, sem sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf í síðasta mánuði þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd um málið. Þetta eigi að gera vegna þess að Tryggvi hafi nýjar upplýsingar sem byggja á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var. Samkvæmt heimildum Kjarnans mun rannsóknin meðal annars snúast um hvort Kaupþing, sem var sameinaður Búnaðarbankanum skömmu eftir að söluna á bankanum, hafi fjármagnað Hauck &Aufhäuser.
Til viðbótar er tilgangur tillögunnar að „skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. ákvæði laga um rannsóknarnefndir með síðari breytingum."
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í síðustu viku.