Blaðafulltrúi forsætisráðherra hringdi í Nils Hanson, aðalritstjóra fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning sem sýndur er í sænska ríkissjónvarpinu, strax eftir að Sven Bergman, fréttamaður þáttarins, hafði tekið viðtal við Sigmund Davíð Gunnalaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, þann 11. mars og krafðist þess að hluta viðtalsins yrði eytt. Sá hluti sem blaðafulltrúinn vildi að yrði eytt snéri að spurningum og svörum um Wintris Inc., aflandsfélag skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, sem var um tíma í eigu Sigmundar Davíð og eiginkonu hans, en er nú einungis í eigu hennar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem starfsmenn Reykjavik Media, Kastljóss, Uppdrag Granskning og alþjóðlegu blaðamannasamtakanna ICIJ sendu frá sér í dag vegna ummæla Sigmundar Davíðs í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í hádeginu.
Sigmundur Davíð sagði þar að hann hefði verið leiddur í gildru af fjölmiðlamönnum og sagði hann að um óþokkabragð hefði verið að ræða sem snérist um að koma höggi á hann og Framsóknarflokkinn. Í yfirlýsingunni eru birtir fjölmargir tölvupóstar sem sýna að Sigmundi Davíð var, í gegnum Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmann sinn, margoft boðið að koma í annað viðtal til að skýra málefni Wintris. Hann hafnaði því.
Sigmundur Davíð sagði einnig í ræðu sinn að í ótal skipti hafi verið reynt að ráða hann af dögum, ekki í eiginlegri merkingu, heldur með mannorðsmorði. Það sé eins og að það séu gefin út heilu dagblöðin bara til að klekkja á Framsóknarflokknum.