Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að hann hafi aldrei orðið vitni viðlíkri foringjadýrkun og virðist vera hjá „fámennum en duglegum hópi innan Framsóknarflokksins“. Það sé þó töluverð undiralda í flokknum og hörð gagnrýni hafi komið fram á formanns hans, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, á miðstjórnarfundi á laugardag. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Höskuldur, sem tapaði formannskosningum gegn Sigmundi Davíð árið 2009 og síðan leiðtogasætinu í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar 2013, segir hafa miklar áhyggjur af stöðu flokksins. Hugsa þurfi um hvort Framsóknarflokkurinn ætli að eyða kosningabaráttunni framundan í vörn og í að ræða Panamaskjölin, eða hvort hann vilji ganga til kosninga og ræða góð mál. Hann svarar því ekki skýrt hvort hann hyggi á formannsframboð. Hann hafi þó hugsað sér að bjóða sig aftur fram til Alþingis.
Aðrir þingmenn flokksins sem Fréttablaðið ræddi við segja að þeir hafi upplifað fundinn þannig að Sigmundur Davíð muni leiða flokkinn í næstu kosningum.
Í Morgunblaðinu er greint frá því að ekki hafi verið borin fram tillaga um að flýta haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á fundinum á laugardag, en haustfundurinn þarf samkvæmt lögum flokksins að boða til flokksþings. Þar er haft eftir Karl Garðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins, að lítil sem engin umræða hafi verið um þetta efni á fundinum á laugardag. Hann segir marga þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að halda flokksþing fyrir kosningar, sem ætlaðar eru í haust. „Þar er ekki aðeins formanns- og stjórnarkjör heldur er líka stefnan mótuð og sett fyrir kosningar. Þess vegna eru flestir þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að halda flokksþing, svo þau mál séu á hreinu.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sagði í gær að hann ætli ekki að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð ef sá síðarnefndi ákveður að bjóða sig aftur fram til formanns. Þetta sagði Sigurður Ingi í útvarpsþættinum Sprengisandi í gærmorgun.
Sigurður Ingi sagði þar að það væri ekkert launungarmál að ýmsar raddir væru uppi innan flokksins um hvað skyldi gera varðandi flokksforystuna, en Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfar þess að opinberað var að hann hefði átt aflandsfélagið Wintris, skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, með eiginkonu sinni. Félagið, sem yfir milljarð króna í eignum, lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna. Það er í dag skráð einungis í eigu eiginkonu Sigmundar Davíðs.
Eiginkona Sigmundar Davíðs sagði frá tilvist Wintris á Facebook í mars. Nokkrum dögum áður, þann 11. mars, hafði þáverandi forsætisráðherra verið spurður út í félagið í frægu viðtali við sænskan sjónvarpsmann. Það viðtal var síðan sýnt í sérstökum Kastljósþætti 3. apríl sem fjallaði um aflandsfélagaeign kjörinna fulltrúa á Íslandi. Sigurður Ingi sagði í Sprengisandi að það hefði verið betra ef Sigmundur Davíð hefði stigið strax fram og skýrt málið. Hann hefði getað upplýst flokkinn og þjóðina alla.
Forsætisráðherrann sagði það væri alveg öruggt að kosið yrði í haust. Það væri ekki hægt að hætta við kosningar við þær aðstæður sem uppi væru. Þá dragi enginn framsóknarmaður það í efa að mikilvægt væri að halda flokksþing fyrir kosningar í haust og kjósa forystu flokksins. Sigurður Ingi sagðist styðja Sigmund Davíð til áframhaldandi formennsku og að hann myndi ekki bjóða sig fram gegn honum ef Sigmundur Davíð ákveður að bjóða sig aftur fram.
Sigmundur Davíð flutti yfirlitsræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarmanna á laugardag. Þar ræddi hann Wintris-viðtalið og sagði m.a. að hann hefði verið leiddur í gildru af fjölmiðlamönnum og að um óþokkabragð hefði verið að ræða sem snérist um að koma höggi á hann og Framsóknarflokkinn. Sigmundur Davíð sagði einnig í ræðu sinn að í ótal skipti hafi verið reynt að ráða hann af dögum, ekki í eiginlegri merkingu, heldur með mannorðsmorði. Það sé eins og að það séu gefin út heilu dagblöðin bara til að klekkja á Framsóknarflokknum.