Stjórn Arev verðbréfafyrirtækis ákvað að færa stýringu á félaginu Eldey, sem fjárfestir ferðaþjónustufyrirtækjum, alfarið yfir til eignarstýringar Íslandsbanka vegna vandræða annars sjóðs í stýringu hjá fyrirtækinu.
Sá sjóður, Arev NII, hefur nú verið tekin úr stýringu hjá Arev vegna þess sem álitið er að séu „alvarlegar misfellur í rekstri“ og þær misfellur tilkynntar til Fjármálaeftirlitsins (FME). Misfellurnar felast í því að tvö félög í eigu eiganda Arev greiddu ekki inn í sjóðinn í réttu hlutfalli við áskriftarloforð sitt.
Eigandinn greiddi ekki hlutafjárloforð
Kjarninn greindi frá því um helgina að tvö félög sem tengjast Arev verðbréfafyrirtæki hafi ekki greitt hlutafé inn í sjóð sem Arev stýrir í samræmi við það sem þau lofuðu að gera. Þetta sagði Gunnar Sturluson, hæstaréttarlögmaður og einn eiganda lögmannsstofunnar LOGOS, sem er nýr stjórnarformaður umrædds sjóðs, Arev NII, sem hefur verið tekinn úr stýringu hjá Arev. LOGOS tilkynnti auk þess um það stofan álitur „alvarlegar misfellur í rekstri Arev NII“ til FME.
Kjarninn beindi fyrirspurn til Björns Jóhannessonar, framkvæmdastjóra Arev, og spurði hvort þessar ásakanir væru réttar. Björn segir í skriflegu svari að Arev NII hafi í byrjun maí upplýst ráðgjafaráð sjóðsins um að tvö félög í eigu Jóns Scheving Thorsteinssonar, eiganda Arev verðbréfafyrirtækis, hefði ekki greitt inn í sjóðinn í réttu hlutfalli við áskriftarloforð. „Ímaí sl. greiddi annað félaganna tveggja skuld sína við sjóðinn en hitt félagið, Arev Brands Ltd., hefur enn ekki greitt.“
Björn segir að þar sem um sé að ræða félag tengt eiganda eignastýringaraðilans, Arev verðbréfafyrirtækis, hafi stjórn verðbréfafyrirtækisins ekki gert athugasemdir við slit á eignastýringarsamningi við félagið.
Hluthafar í Arev NII eru fimmtán talsins. Þar af eru ellefu lífeyrissjóðir. Hluthafar skuldbundu sig til að leggja sjóðnum til hlutafé sem kallað var eftir jafnóðum og fjárfest var samkvæmt ráðgjöf Arev verðbréfafyrirtækis. Alls átti nafnverð hlutafjár að vera tæplega 660 milljónir króna í byrjun desember síðastliðins, en var það ekki.
Vildu forðast áhrif á Eldey
Í desember 2015 stofnuðu VÍB, eignastýring Íslandsbanka, og Arev saman hlutafélag sem fjárfestir í ferðaþjónustufyrirtækjum. Stefnan var sett á að skrá félagið, sem Hrönn Greipsdóttir stýrir, á markað. Fyrstu fjárfestingar Eldeyjar voru kaup á 30 prósent hlut í Norðursiglingu á Húsavík og 17 prósent hlut í félaginu Gufu, sem á Fontana á Laugavatni.
20. maí síðastliðinn, hálfu ári eftir að Eldey var stofnað, var tilkynnt að Hrönn hefði verið ráðinn í starf fjárfestingarstjóra hjá VÍB. Í fréttatilkynningunni kom einnig fram að umsýsla og varsla Eldeyjar myndi flytjast með henni yfir til VÍB.
Kjarninn spurði Björn hvað hefði valdið því að eignastýring Eldeyjar hefði færst alfarið yfir til Íslandsbanka, einungis örfáum mánuðum eftir að tilkynnt hafði verið um að bæði Arev og Íslandsbanki myndu sjá um reksturinn. Björn segir að stjórn Arev hafi ákveðið það. „Ástæðan er óvissa vegna áðurnefnds máls Arev NII slhf. og vildi stjórnin forðast að málið hefði áhrif á Eldey TLH hf. eða eigendur þess. Jafnfram var FME gerð grein fyrir málinu af hálfu stjórnar.“