Ríkið þarf að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um að loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjarvíkurflugvelli. Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms Reykjavíkur síðan 22. mars síðastliðinn þess efnis, sem Kjarninn fjallaði um.
Í málinu krafðist Reykjavíkurborg þess að Ólöf Nordal innanríkisráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, yrði gert að loka NA/SV-flugbraut (flugbraut 06/24), sem oft er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli og endurskoða skipulagsreglur fyrir völlinn. Meginágreiningur aðila laut að túlkun og þýðingu skjals sem þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, og borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, undirrituðu 25. október 2013. Reykjavíkurborg taldi að skjalið hafi falið í sér bindandi loforð af hálfu stefnda um að loka umræddri flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Af hálfu ríkisins var því hins vegar hafnað af ýmsum ástæðum að skjalið hafi falið í sér loforð af hans hálfu eða skuldbindandi samning.
Héraðsdómur dæmdi í málinu í mars og komst að þeirri niðurstöðu að loka eigi brautinni. Í dómsorði sagði að innanríkisráðherra eigi að endurskoða skipulagsreglur til samræmis við þá lokun.
Lokun hefur lengi staðið til
Lokun brautarinnar hefur staðið árum saman. Árið 2005 undirrituðu þáverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir og þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson samkomulag um samgöngumiðstöð sem rísa skyldi í Vatnsmýrinni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 undirrituðu Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyrirvari á því samkomulagi að það myndi rísa samgöngumiðstöð við enda brautar 06/24.
Í október 2013 undirritaði Hanna Birna, þá innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, samþykkt um að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Þegar því yrði lokið átti að tilkynna um lokun brautarinnar. Í desember 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að undirbúningur yrði hafin að lokun flugbrautarinnar, með þeim fyrirvara að ekkert yrði gert fyrr en að Rögnunefndin svokallaða myndi skila niðurstöðum sínum. Skýrslu hennar var skilað í fyrra og niðurstaða nefndarinnar leysti ekki deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar á nokkurn hátt. Ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur enn ekki fyrir.