Kennarasamband Íslands og samninganefnd sveitarfélaga hittust á fundi í morgun til að ræða stöðuna sem upp er komin, eftir að kennarar felldu kjarasamningana með afgerandi hætti í atkvæðagreiðslu sem fór fram dagana 2. til 9. júní.
Atkvæði fóru á þessa leið:
Á kjörskrá: | 4.453 | |
Atkvæði greiddu: | 2.932 | (65,84%) |
Já: | 741 | (25,27%) |
Nei: | 2.118 | (72,24%) |
Auðir: | 73 | (2,49%) |
Ólafur Loftsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði við Kjarnann að nú yrði reynt að ná samningum sem kennarar gætu sætt sig við.
Samkvæmt samningnum sem undirritaður var 30. maí síðastliðinn, og nú hefur verið felldur, áttu laun grunnskólakennara að hækka um 9,5 prósent á næstu þremur árum. Þá átti að taka upp að nýju greiðslur til kennara sem sinna gæslu í frímínútum.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að hljóðið í sveitarstjórnarfólki hafi verið þungt áður en samningurinn um hækkanirnar var samþykktur, þar sem hann setur sveitarfélög í rekstrarlegan vanda. „Þannig að það var ekkert sjálfgefið að hann fengi samþykki okkar megin,“ sagði Halldór.