Stjórn Vaðlaheiðarganga hefur ákveðið að lána ríkinu efnið í flughlað á Akureyrarflugvelli án þess að vita hvort það fáist greitt fyrir efnið. Efnið sem grafið er úr Vaðlaheiðargöngum hefur safnast saman fyrir fram munna ganganna sem framkvæmdaraðlili þarf að losna við. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Ríkið á ekki nóg af peningum til að greiða fyrir allan flutning efnisins á nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Innanríkisráðherra veitti 50 milljónum króna til verkefnisins á síðasta ári en talið er að flutningurinn einn og sér muni kosta um 150 milljónir króna. Lítið hefur gerst síðan milljónirnar 50 kláruðust.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir í samtali við Fréttablaðið að ákvörðunin hafi verið tekin til þess að rýma til á vinnusvæði við muna ganganna. Mikið hafi safnast saman af efni sem þurfi að flytja burt. Þess vegna hafi framkvæmdaraðilinn við gönginn gripið til þess ráðs að lána fyrir flutningi efnisins án þess að hafa nokkuð fast í hendi um endurheimtur frá ríkinu.
Tafir á uppbyggingu nýs flughlaðs við Akureyrarflugvöll eru farnar að skapa öryggisógn að mati formanns öryggisnefndar félags íslenskra atvinnnuflugmanna. Hann sagði í samtali við RÚV í síðasta mánuði að afar brýnt væri að klára verkefnið til þess að völlurinn geti sinnt aukinni umferð farþegaflugs um landið. „Nú þegar hefur umferð til Keflavíkurflugvallar stóraukist undanfarin ár,“ sagði Ingvar Traustason, formaður öryggisnefndarinnar. „Það gerðist nú síðast í mars á síðasta ári að tvær erlendar vélar þurftu að hverfa til Egilsstaða, svo þetta hangir allt saman,“ sagði Ingvar.
Akureyrarflugvöllur gegnir hlutverki varaflugvallar ef ekki er hægt að lenda á Miðnesheiði vegna slæmra veðurskilyrða eða hvað eina. Flughlaðið á Akureyrarflugvelli er lykill að því að hægt sé að beina farþegaflugi til Akureyrar ef Keflavíkurflugvöllur lokast, enda þarf pláss til að leggja farþegaþotunum.