Mun fleiri hafa greitt atkvæði utan kjörfundar á höfuðborgarsvæðinu nú en fyrir síðustu forsetakosningar árið 2012. Í dag eru tólf dagar þar til gengið verður til forsetakosnigna, laugardaginn 25. júní. Þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslan lokaði í gær höfðu 5.953 mann greitt atkvæði í forsetakosningunum. 695 atkvæði höfðu verið póstlögð og 5.258 manns höfðu komið að kjósa.
Leiða má líkur að því að sá mikli fjöldi fólks sem lagt hefur leið sína til Frakklands til að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu leika á Evrópumeistarmótinu geti skýrt þann mikla fjölda sem þegar hefur kosið. Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, býst við að um 8.000 íslenskir stuðningsmenn fylgist með landsliðinu keppa við Portúgal í Saint-Étienne í kvöld.
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu sem heldur utan um utankjörfundaratkvæðagreiðsluna eru þetta nokkuð háar tölur miðað við fyrri ár, svo mörgum dögum fyrir kosningar. Erfitt sé hins vegar að gera nákvæman samanburð því sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið sameinuð síðan 2012. Í ár var farið fyrr á hjúkrunarheimili fyrir aldraða en það skýri hins vegar ekki svo mikla aðsókn ellefu dögum fyrir kjördag.
Séu tölurnar frá Reykjavík 2012 annars vegar og höfuðborgarsvæðinu 2016 hinsvegar bornar saman sést að nokkuð stökk hefur orðið í aðsókn á kjörstað undanfarna daga, miðað við árið 2012. Rétt er að ítreka að þetta er aðeins gert til samanburðar á hegðun fólks dagana fyrir kjördag. Hins vegar er auðvelt að sjá breytta hegðun kjósenda.
Í síðustu þremur kosningum, forsetakosningum 2012, Alþingiskosningunum 2013 og sveitarstjórnarkosningum 2014, hefur umferðin á utankjörfund aukist jafnt og þétt þar til kemur að kjördegi. Það er því líklegt að enn eigi aðsóknin eftir að aukast út næstu viku jafnvel þó margir virðist hafa kosið áður en Ísland hóf leik á Evrópumótinu.