Norðaustur-suðvesturflugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli hefur verið lokað í allt sumar. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi Isavia. Flugmönnum var gert viðvart um lokunina í morgun. Flugbrautin hefur hlotið heitið „neyðarbrautin“ í umræðunni í tengslum við lokun hennar og brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni.
Í skilaboðunum, svokölluðu NOTAM sem flugmönnum er skylt að skoða áður en farið er um flugvöllinn, kemur fram að flugbrautinni hafi verið lokað í morgun klukkan 9:53 og að hún opni ekki aftur fyrr en á miðnætti aðfararnótt 15. september.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er lokunin ekki að beiðni innanríkisráðuneytisns. Brautinni hafi aðeins verið lokað í sumar vegna þess hversu lítið notuð hún er. Enn er beðið eftir fyrirmælum frá ráðuneytinu um algera lokun flugbrautarinnar. Óvíst er hvenær þau fyrirmæli muni berast, en samkvæmt Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa Isavia, þá er gert ráð fyrir að þau komi fljótlega.
Hæstiréttur staðfesti á dögunum dóm héraðsdóms Reykjavíkur um að innanríkisráðuneytinu væri skylt að loka flugbrautinni í samræmi við samkomulag sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra flugmála, gerði við Reykjavíkurborg haustið 2013. Þar var því lofað að flugbrautinni yrði lokað. Reykjavíkurborg réðst í kjölfarið í uppbyggingu íbúðahverfis við nyrðri enda brautarinnar. Þegar Ólöf Nordal settist svo í stól innanríkisráðherra var ákvörðuninni um lokun flugbrautarinnar snúið við. Reykjavíkurborg höfðaði þá mál við ríkið sem hæstiréttur hefur dæmt í eins og áður segir.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er brautin ofboðslega lítið notuð á sumrin. Hún sé í mun meiri notkun í skítaveðrum og ákveðnum vindáttum sem oftar ganga yfir Reykjavík á veturnar. Þá er flugbrautin oft notuð sem flugvélastæði á sumrin. Þar stendur til að mynda Douglas D3-vél Icelandair, oftast nefnd Þristurinn, við brautarendan eins og er.