Tveir menn voru handteknir og færðir til skýrslutöku í gær vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins svokallaða. Mönnunum var sleppt að lokinni yfirheyrslu en nýr vitnisburður liggur fyrir í málinu, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins í dag.
Mennirnir voru yfirheyrðir hvor í sínu lagi vegna rannsóknarhagsmuna og til að koma í veg fyrir að þeir gætu samræmt vitnisburð sinn. Báðir eru sagðir hafa komið við sögu lögreglu áður og afplánað refsingar.
Settur ríkissaksóknari í málinu er Davíð Þór Björgvinsson. Hvorki hann né Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunar, vildu tjá sig við Morgunblaðið um málið.
Endurupptökunefnd fer með málið og metur hvort tilefni sé til að málið fari á ný fyrir dómstóla. Sex voru dæmd í Hæstarétti áið 1980 fyrir aðild sýna að hvarfi Guðmundar Einarsson og Geirfinns Einarssonar árið 1974. Síðar hefur verið sýnt fram á að játningar hafi verið knúnar fram með ólögmætum hætti og hafi því verið falskar.
Kjarninn greindi frá því í desember að niðurstöðu endurupptökunefndarinnar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu væri ekki að vænta fyrr en á þessu ári.