Eins og alþjóð veit ræðst það rétt fyrir klukkan sex í dag hvort íslenska karlalandsliðið í fótbolta kemst áfram í sextán liða úrslit á Evrópumótinu í Frakklandi. Mörg íslensk fyrirtæki hafa brugðið á það ráð að loka fyrr en venjulega vegna leiksins, sem byrjar klukkan fjögur að íslenskum tíma.
Það er hins vegar ekki bara á Íslandi sem spennan magnast fyrir síðasta leiknum í riðlinum. Íslenska liðið hefur heillað fjölmarga upp úr skónum og allir sem fylgjast með mótinu yfir höfuð verða með athyglina á leiknum á eftir.
Danir komu sínu liði ekki á mótið en hafa margir hverjir lýst yfir stuðningi við hið íslenska í staðinn. Segja má að fjölmiðlarnir fari þar fremstir í flokki, og í dag lýsir danska ríkisútvarpið, DR, því yfir í myndbandi á Facebook-síðu sinni að „í dag erum við öll Íslendingar.“
Danska blaðið Politiken hefur gengið öðrum lengra, og hefur allt Evrópumótið haft íslenska fánann í haus vefsíðu sinnar. Þar birtast svo mismunandi skilaboð og í dag eru þau einföld: Auf wiedersehen Østrig, eða bless Austurríki.
Auk þess hefur Politiken fengið íslenskan kór til þess að syngja íslenska þjóðsönginn, til þess að kenna lesendum að syngja með. „Nú hefur þú tækifæri til að læra hann - svo þú getir hrópað með þegar leikurinn gegn Austurríki verður flautaður á,“ segir í fréttinni.
Ekki nóg með þetta heldur ætlar Politiken alla leið á Íslandsbryggju í kvöld, að því er segir í annarri frétt. Fjölmiðillinn ætlar að mæta á svæðið klukkutíma fyrir leik og gefa fólki íslenska fána.