Myndbönd með lýsingu Guðmundar Benediktssonar, Gumma Ben, á því þegar Ísland komst í 2-1 gegn Austurríki og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu fara nú eins og eldur í sinu um internetið. Gummi lýsti leiknum fyrir Símann, sem setti inn myndbandið hér að neðan skömmu eftir að leiknum lauk. Margar milljónir manna hafa séð hin ýmsu myndbönd.
Sports Illustrated segir lýsinguna ótrúlega. „Geðshræring, gleði og röð háværra hljóða.“ Hjá CBS fréttastofunni í Bandaríkjunum er einfaldlega sagt að íslenski þulurinn hafi misst vitið. „Ég hef ekki hugmynd um hvað þessi maður er að segja, en það er stórkostlegt hvort sem er.“ USA Today segir einfaldlega að Gummi hafi misst vitið og röddina. „Allir á Íslandi voru spenntir, en kannski enginn meira en þessi lýsandi.“
„Ef þú hlustar á lýsinguna á sigurmarkinu hjá Arnóri Traustasyni, þá gætirðu haldið að Ísland hefði unnið heimsmeistaramótið,“ segir NY Daily News.
Indian Express segir Gumma vera að eignast nýja aðdáendur um allan heim eftir lýsinguna. Hún hafi verið „instant classic“ og Gummi er þar sagður vera „költhetja“ Evrópumótsins. Sömu sögu segir ástralski fjölmiðillinn ABC.
BBC, ESPN, Guardian, Telegraph og Danska ríkissjónvarpið DR eru meðal þeirra sem hafa einnig fjallað um lýsinguna.
Goal.com virðist hins vegar mögulega hafa misskilið eitthvað aðeins, en birtir stórskemmtilegt myndband af íþróttafréttamanninum Hauki Harðarsyni fagna markinu ógurlega en hefur lýsingu Gumma Ben undir.