Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær að yfirgefa Evrópusambandið (ESB). Um 52 prósent kjósenda kaus með því að yfirgefa ESB en 48 prósent með því að Bretland yrði áfram aðildarríki, eins og það hefur verið í 43 ár.
Andstaðan við áframhaldandi veru í ESB var sérstaklega áberandi í Wales og ýmsum minni héruðum og sveitarfélögum, utan helstu borgarkjarna, samkvæmt BBC. Það var fréttavefur The Independent sem var fyrstur til að greina frá því að Bretar hefðu kosið að yfirgefa ESB.
Kosningabaráttan hefur verið hörð, þar sem fylkingar hafa tekist á um hvort Bretlandi sé betur borgið innan ESB eða ekki. David Cameron, forsætisráðherra, er sjálfur mikill stuðningsmaður þess að Bretland verði áfram hluti af ESB, en meðal hörðust fylgismanna þess að Bretland fari úr ESB, er Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri í London.
Kjarninn hefur fjallað nokkuð um Brexit og má meðal annars lesa um kosningarnar og hvers vegna þær fóru fram, og síðan helstu álitamálin sem deilt var um.
Líklegt er að íslensk stjórnvöld muni fylgjast með gangi mála í Bretlandi, sem er eitt helsta viðskiptaland Íslands.
Íslendingar fluttu út vörur og þjónustu til Bretlands fyrir meira en 120 milljarða króna á síðasta ári. Á móti voru fluttar inn vörur og þjónusta frá Bretlandi fyrir 90 milljarða. Þá eru Bretar um 19 prósent af erlendum ferðamönnum sem sækja okkur heim ár hvert, og fjölmennasti einstaki hópurinn, að því er Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, benti á í grein í gær.