Þegar þetta er skrifað benda talin atkvæði til þess, að fleiri hafi kosið með því að Bretland fari úr Evrópusambandinu (ESB) en færri með því að Bretland verði áfram hluti af ríkjabandalaginu. Samkvæmt vef breska ríkisútvarpsins BBC, hafa 497 þúsund kosið með því að fara út ESB en 494 þúsund með því að vera áfram í ESB.
Fyrstu tölur komu frá Gíbraltar þar sem 96 prósent kusu með því, að Bretland verði áfram hluti af ESB.
Líklegt þykir, að mjótt verði á munum, alveg fram á síðustu stundu, en niðurstaðan mun liggja fyrir í fyrramálið, það er að morgni 24. júní á okkar tíma.
Kosningabaráttan hefur verið hörð, þar sem fylkingar hafa tekist á um hvort Bretlandi sé betur borgið innan ESB eða ekki. David Cameron, forsætisráðherra, er sjálfur mikill stuðningsmaður þess að Bretland verði áfram hluti af ESB, en meðal hörðust fylgismanna þess að Bretland fari úr ESB, er Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri í London.
Kjarninn hefur fjallað nokkuð um Brexit og má meðal annars lesa um kosningarnar og hvers vegna þær eru að fara fram nú, og síðan helstu álitamálin sem deilt er um.