Bernie Sanders, sem hefur sóst eftir útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, segist ætla að kjósa Hillary Clinton í forsetakosningunum þar í landi í nóvember. Clinton hefur verið með mikið forskot á Sanders í kapphlaupinu um útnefningu Demókrata síðan það hófst.
„Já,“ sagði Sanders þegar hann var spurður að því í viðtali á MSNBC-sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum, hvort hann muni greiða Clinton atkvæði sitt í kosningunum í nóvember. „Ég held að það rétta í stöðunni sé að gera allt sem í mínu valdi stendur til að fella Donald Trump.“
Það verði hræðilegt ef Trump verði kjörinn forseti. „Við þurfum ekki forseta sem elur á fordómum, gerir lítið úr Mexíkóum og konum, og trúir ekki á loftslagsbreytingarnar, jafnvel þó allir vísindamenn bendi á að hér sé um alheimsvandamál,“ sagði Sanders.
Sanders hefur hins vegar ekki gefist upp þó Clinton hafi mikið forskot. Hann hefur sótt á í þeim ríkjum sem kosið hefur verið í undanfarið en vantar samt ennþá um það bil þúsund kjörmenn til að hljóta útnefninguna. Það eru aðeins 75 kjörmenn enn í boði. Hann viðurkennir að það sé nær ómögulegt fyrir hann að hljóta útnefninguna.
Sanders tjáði sig einnig um Brexit og ákvörðun Breta að segja sig úr Evrópusambandinu. „Ég hef áhyggjur af því að samstarf á alþjóðavettvangi sé að brotna niður,“ sagði Sanders. „En það sem þessi niðurstaða sýnir er að efnahagskerfi heimsins er ekki að virka fyrir alla.“