Miðasala á leik Íslands og Frakklands hefst í hádeginu í dag á heimasíðu UEFA, evrópska knattspyrnusambandsins. Leikurinn fer fram á Stade de France í París klukkan 19 að íslenskum tíma á sunnudaginn næstkomandi, 3. júlí. Eftir ótrúlegan sigur íslenska landsliðsins gegn Englandi í gærkvöld komust Íslendingar í átta liða úrslit og spila fyrsta leikinn gegn gestgjöfum EM, Frökkum. Stade de France tekur rúmlega 81 þúsund áhorfendur, en Allianz Riviera-leikvangurinn í Nice, sem leikið var á í kvöld, tekur einungis rúmlega 35 þúsund.
Búist er við því að Íslendingar streymi til Parísar til að verða vitni að þessum sögulega viðburði, en flug seljast hratt upp. Ferðaskrifstofan Heimsferðir opnaði fyrir bókanir klukkan 9:30 en vegna álags er hún afar hæg. Heimsferðir ætla að bjóða upp á kvöldflug til Parísar laugardaginn 2. júlí og heim aftur til Íslands þriðjudaginn 5. júlí.
Icelandair reynir að finna fleiri vélar
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að stefnt sé að því að koma flestum sem vilja til Parísar. Úrslit gærkvöldsins hafi reyndar ekki verið eitthvað sem Icelandair hafði almennt reiknað með, eins og gefur að skilja. En brugðist verði við stöðunni og líklega verða þær þrjár flugferðir til Parísar sem boðið er upp á dag hvern fljótar að fyllast. Hægt er að komast til Parísar í gegnum London, Brussel, Amsterdam, Kaupmannahöfn og ýmsar aðrar borgir. Guðjón undirstrikar við MBL að reynt verði að finna fleiri flugvélar í beint flug, þó að það sé ekki einfalt á þessum árstíma.
Heimasíða WOW Air hrundi vegna álags
Heimasíða flugfélagsins WOW Air hrundi í gærkvöldi vegna álags þegar fólk hópaðist inn á síðuna til að finna sér flug til Parísar. Hún komst þó fljótt í lag. Klukkan 9:30 í dag voru örfá sæti laus til Parísar, en búist er við því að þau seljist fljótt upp.