Tveir stjórnmálaflokkar hafa tilkynnt framboðslista sína fyrir komandi Alþingiskosningar og eru þeir báðir í Norðausturkjördæmi. Vinstri græn stilltu á lista og var hann samþykktur á félagsfundi á Mývatni fyrir viku síðan. Í dag urðu niðurstöður úr prófkjöri Pírata í kjördæminu svo ljós. VG mældist með 16,8 prósenta fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi og Píratar með 28,3 prósent.
78 flokksmenn kusu í netkosningu í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi. Fjórtán voru í framboði og leiðir Einar Aðalsteinn Brynjólfsson framhaldsskólakennari á Akureyri, listann. Guðrún Ágúst Þórdísardóttir rekstrarfræðingur er í öðru sæti og Hans Jónsson í því þriðja. Kristín Amalía Atladóttir er í fjórða sæti og Gunnar Ómarsson í fimmta.
Sakar Pírata um klíkuskap
Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri, gaf kost á sér í forystusætið en hann hafnaði í sjöunda sæti listans. Á Facebook síðu sinni sagði Björn í dag, eftir að úrslit urðu ljós, að klíkuskapur hafi ráðið því að hann hafnaði svo neðarlega. Hann segir Pírata hafa kosið sér slaka þingmannasveit.
„Nokkrir tugir manna tóku sig saman þar sem þeim stafaði ógn af mér varðandi eigin drauma um þingsæti, í stað þess að spyrja: Er hann okkur kannski liðsauki? Ekki mikil höfnun það, mikill stuðningur á landsvísu og fyrir hann er ég þakklátur, enda veit almenningur hvar hann hefur mig,“ skrifar Björn. Hann segir að það hafi verið sitt val að „svíkja lit hins faglega hlutleysis blaðamannsins,“ og telur að sér verði „sennilega fyrirgefið pólitíska hliðarsporið,“ enda séu Píratar fyrst og fremst andófsafl sem styðji róttæka kerfisbreytingu. „Hitt skiptir einnig máli varðandi traust og trúnað að lítil búbla hér í norðlensku héraði situr nú uppi með sjálfa sig og eigin ranghugmyndir,“ skrifar Björn.
Lítil endurnýjun hjá VG
Efstu tuttugu sætin á lista VG í Norðausturkjördæmi hafa verið skipuð og er Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og fyrrverandi formaður flokksins, þar í fyrsta sæti. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður er í öðru og Björn Valur Gíslason, stýrimaður og varaformaður VG, í því þriðja. Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari á Neskaupsstað, er í fjórða sæti listans og Óli Halldórsson, forstöðumaður og sveitarstjórnarfulltrúi Norðurþings, í fimmta.