Vísitölur helstu hlutabréfamarkaða í heiminum hafa að mestu leyti náð sömu stöðu og var á mörkuðum, áður en „sjokk“ áhrifin af Brexit-kosningunum komu fram. FTSE vísitalan hækkaði um 2,21 prósent í dag, DAX vísitalan þýska um 1,75 prósent, og Nasdaq vísitalan í Bandaríkjunum hefur hækkað 1,94 prósent, samkvæmt fréttum Wall Street Journal.
Pundið kostar nú 167 krónur, en það kostaði tæplega 180 krónur fyrir kosningarnar. Krónan hefur því styrkst umtalsvert gagnvart pundinu að undanförnu.
Pundið hefur styrkst lítið eitt gagnvart Bandaríkjadal, en er ennþá mun veikara en það var, fyrir atkvæðagreiðsluna. Sem kunnugt er fór hún þannig, að 52 prósent Breta kusu með því að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið en 48 prósent vildu að Bretland yrði ennþá hluti af því.
Þrátt fyrir að hlutabréfavísitölur hafi jafnað sig, að meðaltali, þá er markaðsvirði margra stórra fyrirtækja í Bretlandi ennþá mun lægra en það var fyrir atkvæðagreiðsluna. Sérstaklega á þetta við um banka og tryggingarfélög.
Hart var deilt um niðurstöðuna í Brexit-kosningunum á Evrópuþinginu í gær, og var Nigel Farage, forystumaður UKIP, breska sjálfstæðisflokksins, sakaður um að beita lygum og blekkingum í aðdraganda kosninganna, og gekk einn svo langt að segja hann hafa borið fram „nasistaáróður“.
Ekki liggur fyrir ennþá, hvert verður pólitískt framhald málsins í Bretlandi, en David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra, hefur þó tilkynnt um afsögn sína. Samkvæmt sáttmála ESB hafa aðildarþjóðir tvö ár til að yfirgefa sambandið, eftir að hafa formlega tilkynnt um að þau ætli að yfirgefa sambandið. Ekkert liggur fyrir um það enn, hvernig staðið verður að útgöngu.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt að engar óformlegar viðræður muni eiga sér stað um nein mál, er varðandi hugsanlega útgöngu, heldur einungis ef það kemur formlega frá breskum stjórnvöldum, að vilji sé til útgöngu.
Íslensk stjórnvöld eru að fylgst grannt með þróun mála, samkvæmt því sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hefur sagt. Íslands á mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að viðskiptum við Bretland. Voru- og þjónustuútflutningur nam 120 milljörðum í fyrra til Bretlands, og þá komu um 19 prósent erlendra ferðamanna til Íslands frá Bretlandi.