Nokkur ensk úrvalsdeildarlið eru sögð vera að bera víurnar í Ragnar Sigurðsson, hetju íslenska landsliðsins í leiknum gegn Englandi, samkvæmt breskum fjölmiðlum.
Ragnar var valinn maður leiksins en hann hefur staðið sig gríðarlega vel allt mótið. Ensku meistararnir Leicester og Tottenham Hotspur, sem lenti í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar í vetur, hafa sýnt formlegan áhuga á honum og haft samband við umboðsmann hans, að því er Guardian greinir frá. Liverpool og önnur úrvalsdeildarlið eru einnig sögð hafa lýst yfir áhuga á honum.
Þá er sagt að þýsku liðin Schalke og Wolfsburg hafi áhuga á að fá hann í sínar raðir og hafi haft samband við Krasnodar, liðið sem Ragnar spilar með í Rússlandi.
Fjölmiðlar í Englandi greina líka frá áhuga á Jóhanni Berg Guðmundssyni, sem spilar hjá Charlton í ensku annarri deildinni, en ljóst þykir að hann mun yfirgefa herbúðir liðsins í sumar. Hann hefur sjálfur sagt að hann ætli ekki að hugsa um vistaskiptin fyrr en að Evrópumótinu er lokið, en nú greina fjölmiðlar frá áhuga fyrstu deildar liðsins Norwich á honum.
Íslensku landsliðsmennirnir hafa vakið mikla athygli á Evrópumótinu og hefur verið talið að margir þeirra myndu vekja athygli og áhuga ýmissa liða, enda mót eins og þetta einn stærsti sýningargluggi fyrir fótboltamenn.